Fróðleikur

5 leiðir til að vakna betur á morgnana

25.01.2018

Meðan sumir stökkva fram úr kl 06:00 á morgnana úthvíldir eru aðrir (.. ég tengi) sem eiga í örlítið meira basli með þetta. Oft er talað um A og B týpur. Í grófum dráttum eru A týpur kvöldsvæfar og vakna alltaf snemma á morgnana, tilbúnar að takast á við daginn, B týpur eru meiri nátthrafnar, finna sér oft eitthvað sniðugt að gera þegar það ætti að vera kominn háttatími og þeim finnst voða notalegt að sofa út.

Það er þó ekki öll von úti fyrir B týpurnar, ónei! Við þurfum bara að koma okkur upp nýjum vana, og trúið mér, þetta venst!

Hér eru 5 leiðir sem ættu að auðvelda þér að vakna á morgnana

1. Undirbúðu morgundaginn

Áður en þú ferð í háttinn skaltu taka saman fötin fyrir morgundaginn og leggja við rúmið. Undirbúðu morgunmatinn svo þig hlakki til að fara fram úr og fá þér að borða. Taktu líka til nestið og allt sem þú þarft að taka með þér út í daginn. Ef allt er tilbúið þegar þú vaknar er í raun það eina sem þú þarft að gera að rífa þig fram úr, restina gerir þú sjálfkrafa.

2. Haltu rútínunni

Hafðu rútínuna fyrir svefninn alltaf svipaða og á svipuðum tíma. Ef þú átt erfitt með að ná þér niður eftir daginn, bættu þá heitri sturtu eða baði við kvöldrútínuna, fáðu þér heitan koffínlausan drykk og lestu bók eða tímarit.

3. Hafðu herbergið svefnvænt

Passaðu upp á truflanir eins og hljóð, lýsingu, sjónvarp, tölvu, síma o.s.frv. Hafðu svefnherbergið hæfilega dimmt og hitastigið gott. Það er góður vani að opna gluggann upp á gátt á kvöldin og loka honum eða setja rifu þegar þú ert að fara upp í rúm. Þá er svalt inni þegar þú sofnar en heitt og notalegt þegar þú vaknar.

4. Vaknaðu í dagsbirtu

Að vakna alla daga í myrkri getur gert okkur erfitt fyrir, enda líkamsklukkan ringluð á þessu næturbrölti. Það gerir gæfumuninn að vekja líkamann með dagsbirtu. Fáðu þér vekjaraklukku með dagsbirtuljósi sem líkir eftir sólarupprás. Þegar vekjaraklukkan hringir er orðið fullbjart í herberginu og líkaminn mun betur tilbúinn til að vakna. Hér getur þú skoðað vekjaraklukkur með dagsbirtuljósi.

5. Hreyfðu þig

Regluleg hreyfing bætir líðan, bæði á sál og líkama. Hreyfing vinnur gegn áhrifum streitu á miðtaugakerfið og bætir dagleg hreyfing því einnig gæði svefns og líkaminn hvílist betur.

 

Prófaðu þetta og mundu að það tekur að meðaltali 3 vikur fyrir líkamann okkar að venjast nýjum siðum. Svo ekki gefast upp!

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.