Fróðleikur

Að velja Kæli- og frystiskáp

28.09.2018

Eins einfalt og það virðist að velja sér nýjan ísskáp þá geta málin vandast þegar þú byrjar að lesa þér til um nokkra og  sérð að þetta snýst um meira en verð, stærð og  lit.

Ásamt því að huga að verðbili sem hentar þér þá er mikilvægt að hugsa hversu hagkvæmt þetta er fyrir þig og þínar þarfir. Verslar þú mikið inn í einu og sjaldnar? Ertu með mikið ferskmeti eða frosið? Hversu mikilvægt finnst þér að ísskápurinn sé hljóðlátur, orkusparandi eða að hann safni ekki frosti?

Hér eru nokkur atriði sem geta hjálpað þér:

Orkuflokkur

Orkuflokkar kæli- og frystiskápa eru merktir með einkunnum sem segja til hversu mikil/lítil orkunotkunin er. Best er er hann er merktur A+++, næst A++ svo A+ og að lokum A. Orkunotkunin er gefin upp sem kWh/ári eða kílówött á ári. Það vita ekki allir að þú sparar meiri orku á að hafa frystinn fullan, svo þú getur t.d. fyllt flöskur með vatni og geymt í frystinum ef það er mikið auka pláss.

Því er gott að hafa í huga hversu mikið þú kemur til með að geyma í frysti því stærri frystir er ekki endilega betri ef hann er alltaf hálftómur.

Nettórúmmál

Þá er það hversu mikið frystirinn eða ísskápurinn tekur. Nettórúmmál er mælt í lítrum. Það getur verið vandasamt að ákveða hversu stóran frysti þú þarft, val á stærð ísskáps er auðveldara því í flestum tilfellum fellur hann inn í innréttingu með tilbúnum málum . Ef valið veltir ekki á stærð rýmisins sem frystirinn fær heldur hversu miklu þú þarft að koma ofan í hann þá getur þú ímyndað þér hversu mörgum líters ísum þú kæmir fyrir í frystinum, eða hversu mörgum mjólkurfernum. Athugaðu samt að þegar nettórúmmál er mælt er ekki gert ráð fyrir skúffum eða innvolsi, aðeins heildarrými.

Frystigeta

Kg á dag segir til um frystigetuna eða hversu fljótan tíma það tekur fyrir matinn að frjósa. Því fleiri kg á dag því minni tíma tekur það hann að frysta matinn og því ferskari verður maturinn þegar hann er afþýddur.  Ef þú þarft að frysta mikið í einu er gott að dreifa því um frystinn, þá frýs maturinn hraðar. Gott dæmi er þegar þú skellir SunLolly ískassa í frystinn, þá tekur góðan tíma fyrir ísinn að frjósa en ef þú dreifir ísunum um frystinn frjósa þeir talsvert fyrr, við mikla gleði.

Frystigeta við straumrof

Frystigeta við straumrof segir hversu lengi frystirinn heldur frosti áður en maturinn byrjar að þiðna ef rafmagnið fer af frystinum. Ef þú freistast ekki til að opna frystinn þá heldur hann frosti lengur. Sumir frystiskápar eða -kistur gefa frá sér gaumhljóð ef rafmagn er á honum en hitastig er að hækka, t.d. ef það gleymist að loka hurðinni almennilega.

No frost og Low frost

Kæli- og frystiskápar með sjálfvirka afþýðingu eða afhrímingu eru oft merktir með No frost eða Low frost ef það þarf afar sjaldan að afþýða þá. Það er einstaklega góður kostur ef þeir afþýða sig sjálfir, þ.e. að það safnast ekki upp frost og snjór sem þarf að tæma. Þetta sparar orku og pláss.

Hljóðstyrkur

Hljóðstyrkurinn er mældur í desíbelum, dB. Þar sem kælitæki eru alltaf í gangi skiptir svolitlu máli að þau séu ekki hávær, allavega ef þau eru staðsett inn í rými þar sem fólk dvelur mikið. Allt fyrir neðan 40 dB er frekar hljóðlátt og ætti að virka vel inn á heimilum.

Multiflow

Multiflow er kerfi sem gefur jafnt hitastig um allan ísskápinn svo það er enginn kaldari eða heitari staður. Þá skiptir ekki miklu máli hvar þú geymir vörurnar upp á kuldann að gera, það væri samt kjánalegt að dreifa skyrdollum um skápinn í stað þess að raða þeim saman á einum stað. Multiflow heldur loftstreymi jöfnu um allan skápinn og heldur rakastiginu einnig jöfnu á öllum stöðum.

Snjalltækni

Nú til dags eru í boði snjallísskápar, skápar sem eru með spjaldtölvu framan á og innbyggða myndavél sem geta aðstoðað þig að vita hvað er til heima þegar þú ert að versla í matinn, sú tegund snjallísskápa sem kemur frá Samsung kallast FamilyHub.  Einnig eru til einfaldari útgáfu af snjallari ísskápum sem hafa möguleika á að tengjast WiFi á heimilinu og með smáforriti í símanum getur þú fengið skilaboð ef einhver gleymir að loka hurðinni eða hitastigsbreytingar verða í skápnum.

Skipulag

Að lokum er það skipulagið inn í ísskápnum, vilt þú hafa margar skúffur eða eina stóra, margar hillur eða hvað? Það veltur allt á hvað þú kaupir inn.

Sumir ísskápar eru með skúffur sem eru merktar fyrir grænmeti eða fisk og kjöt. Þá er jafnvel lægra hitastig þar og hægt að stjórna rakastiginu betur.

Ef þú ert í ísskápahugleiðingum þá er úrvalið klárlega til hjá okkur í ELKO hvort sem þú ert að leita að kæliskáp, frystiskáp eða vínkæli!

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.