Fróðleikur

Azul borðspilið

1.12.2019

Azul er skemmtilegt borðspil sem hlaut hin þekktu Spiel des Jahres verðlaun í Þýskalandi og var valið spil ársins 2018. Það hefur einnig hlotið ýmsar aðrar viðurkenningar og tilnefningar.

En hvernig spil er Azul?

Azul er spil sem hentar 2 til 4 leikmönnum og er markmið leiksins að safna flísum í ákveðnum lit og fjölda og búa til ákveðið mynstur. Markmiðið er einfalt, safna sem flestum stigum og stigahæsti leikmaðurinn í lokin vinnur.

Leiknum lýkur þegar minnst einum leikmanni hefur tekist að leggja 5 flísar í lárétta röð á vegginn sinn.

Fyrir hvaða aldur er spilið?

Spilið er tilvalið fyrir alla aldurshópa, 8 ára og eldri. Íslenskar leikreglur fylgja með spilinu og hver leikur tekur um 30 mínútur. Þegar búið er að spila nokkrar umferðir til að fara yfir uppsetningu og reglur samkvæmt leiðbeiningum er leikur einn að spila Azul.

Spiel des Jahres verðlaun – spil ársins 2018

Svona spilar þú Azul:

Undirbúningur

Hver leikmaður fær leikmannaspjald (A) og hliðin með litaða flísaveggnum snýr upp. Allir leikmenn verða að nota sömu hliðina.

Hver leikmaður fær svo stigatening (B) og setur á 0-ið á stigastöflunni.

Uppstillingarplötur (C) eru staðsettar í hring á miðju borði. í 2 manna liek eru notaðar 5 uppstillingarplötur, 7 í 3 manna leik og 9 í 4 manna leik.

Flísar (E) eru settar í poka (D), 20 flíar í hverjum lit, alls 100 flísar.

Leikreglur segja að leikmaður sem fór síðast til Portúgal tekur byrjunarflís en ef engin hefur farið til Portúgal er hægt að miða við þann sem fór síðast til útlanda, er yngstur eða bara hvað sem er :).

Sá sem er með byrjunarflísina (F) hristir pokann og dregur úr pokanum 4 flísar til að setja á hverja uppstillingaplötu.

hver leikur tekur oftast 5 eða fleiri umferðir og hver umferð samanstendur af þremur þrepum:

 • Verksmiðjutilboð
 • Flísalagning
 • Undirbúningur næstu umferðar.
Verksmiðjutilboð

Fyrsti leikmaðurinn, sá sem er með byrjunarflísina leggur hana á mitt borðið og byrjar fyrstu umferð. Síðan er leikið réttsælis.

Sá sem á að gera getur annað hvort valið allar flísar í tilteknum lit af einhverri uppstillingarplötunni og færa svo afgangsflísarnar af þeirri plötu á miðju borðsins. Eða velja allar flísar í tilteknum lit af miðju borðsins. Ef þú ert fyrsti leikmaðurinn til að velja flísar af miðjunni tekur þú einnig byrjunarflísina og leggur á næsta lausa reit lengst til vinstri á gólflínunni þinni.

Þær flísar sem þú valdir setur þú niður í eina mynsturlínu á leikmannaspjaldinu þínu. Leggðu flísarnar eina af annarri frá hægri til vinstri í mynsturlínuna sem þú valdir.

 • Ef það eru flísar nú þegar á línunni máttu aðeins bæta við flísum í sama lit.
 • Ef það er flís á veggnum þínum (á ekki við um fyrstu umferð) má ekki setja flís af sömu gerð í sömu línu.
 • Þegar búið er að fylla alla reiti línunnar telst hún fullkláruð. Ef þú hefur tekið upp fleiri flísar en þú kemur fyrir á línu verður þú að leggja umframflísarnar á gólflínu (sjá nánar í leikreglum).

Markmiðið í verksmiðjutilboðs-þrepinu er að klára eins margar mynsturlínur og þú getur. Í næsta þrepi (Flísalagning) getur þú aðeins fært flísar úr fullkláruðum línum á samsvarandi reit á vegginn þinn til að fá stig.

Flísalagning

Allir leikmenn geta gert þetta þrep samtímis.

Nú á að færa flísar frá kláruðum mynsturlínum yfir á vegginn. Byrjaðu efst og haltu áfram niður. Færðu flísina lengst til hægri í hverri fullkláraðri línu yfir á reit á veggnum þínum með sama lit og flísarnar í línu. Í hvert sinn sem þú færir flís, teldu stigin.

Þú fjarlægir svo allar flísar úr línum sem ekki hafa flís lengst til hægri. Tilvalið er að geyma þær í kassalokinu.

Þær línur sem eru ókláraðar halda sínum flísum fyrir næstu umferð.

Stigatalning

Hver flís sem þú færir yfir á vegginn þinn er alltaf lögð á reit í sama lit og stigin eru talin strax á eftirfarandi hátt:

 • Ef það eru engar flísar aðliggjandi við flísina, færðu eitt stig.
 • Ef einhverjar flísar eru hinsvegar aðliggjandi þarf að athuga fyrst hvort 1 eða fleiri flísar eru til hliðar við nýlögðu flísina öðru hvoru megin. Ef svo er, teldu allar þessar tengdu flísar (þ.á.m. þá nýlögðu) og þú skorar þann fjölda stiga.
 • Athugaðu síðan hvort það eru 1 eða fleiri flísar fyrir ofan eða neðan nýlögðu flísina. Ef svo er, teldu allar þessar tengdu flísar (þ.á.m. þá nýlögðu ) og þú skorar þann fjölda stiga.

Sjá nánari útskýringar í leikreglum.

Að lokum, í lok Flísalagningaþrepsins er einnig athugað hvort einhverjar flísar eru á gólflínunni þinni. Fyrir hverja flís á gólflínunni, missir þú þann fjölda stiga sem sýndur er fyrir ofan hana.

Eftir það fjarlægir þú allar flísar af gólflínunni og setur í kassalokið.

Ef þú ert með byrjunarflísina á gólflínunni þinni, telst það sem venjuleg flís þar. En í stað þess að setja hana í kassalokið, hafðu hana fyrir frama þig.

Þegar stigatalning er búin hjá öllum leikmönnum og búið er að skila öllum flísum í kassalokið sem eiga heima þar er næsta umferð undirbúin.

Ef einhverjum hefur tekist að klára lárrétta línu (í fyrsta lagi í 5.umferð 🙂 ) þá eru LEIKSLOK og viðeigandi kafli skoðaður í leikreglum til að klára stigatalningu. Ef ekki, þá fær leikmaðurinn sem er með byrjunarflísina það hlutverk að fylla á uppstillingarplötunar. Ef pokinn er tómur er hann fylltur með flísum úr kassaloki.

Leikmaðurinn með flest stig í stigatöflunni sinni sigrar leikinn. Ef það er jafntefli, sigrar sá leikmaður sem er með fleiri lárréttar línur.

Tila ð spila öðruvísi útgáfu er hægt að nota gráu hliðar leikmannaspjaldanna. Reglurnar eru alveg eins og í venjulegum leik, nema að þegar þú færir flís af mynsturlínu yfir á vegginn, máttu leggja hana á hvaða reit sem er í samsvarandi vegglínu. Þessi útgáfa af leiknum getur orðið flókin þar sem eftir því sem leiknum vindur fram má ekki leggja nema eina flís í hverjum lit í hverja lóðrétta línu.


Niðurstaðan:

Azul er frábært borðspil fyrir spilakvöldið. Hver leikur er stuttur en þó með kröfu um að réttar ákvarðanir eru teknar af leikmönnum til að fá sem flest stig. Það er hægt að trufla leik andstæðinga með því að fylgjast með hvaða flísagerðir er verið að safna og taka þær af leikborði en sú truflun er frekar saklaus og er ekki eitthvað sem skapar rifrildi eins og í sumum öðrum spilum þar sem ákvörðun eins leikmanns getur eyðilagt alla möguleika annara til að vinna leikinn.

Þar sem spilatími Azul er ekki langur er auðvelt að spila nokkra leiki á einu kvöldi og því möguleiki að fleiri en einn sigrar leikinn.

Kostir:
 • Fallegt eigulegt spil, mikið lagt upp úr leikmannaspjöldum og útliti á flísum.
 • Líklegt að þeir sem eru að spila Azul eru til í fleiri en einn leik í einu.
 • Upplifun á spilinu er mjög mismunandi eftir því hvort 2, 3 eða 4 eru að spila spilið.
 • Verður skemmtilegra og skemmtilegra að spila eftir hversu öruggur maður er á leiknum og stigagjöf.
Ókostir:
 • Tekur dágóðan tíma að læra spilið og nauðsynlegt að spila nokkrar umferðir til að fatta þrepin og reglur.
 • Ef óreyndir eru að spila við reynda hafa nýliðar ekki mikla möguleika á að vinna leikinn, allavega ekki fyrstu 1-3 skiptin.

Azul er fáanlegt í ELKO og er tilvalið í jólapakkann eða jafnvel sem möndlugjöf.

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.