Hugmyndir

Jólabomban 2021

1.12.2021

Anna Guðný Torfadóttir er heilsumarkþjálfi og heldur úti síðunni heilsaogvellidan.com þar sem hún deilir fróðleik fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu í formi greina, námskeiðis og uppskrifta. Anna Guðný leggur mikið upp úr hollum og heilnæmum uppskriftum og býr til allskyns góðgæti sem er vegan, glútenlaust og laust við unninn sykur. Við fengum Önnu Guðnýju til að deila með okkur uppskrift af gómsætum eftirrétti fyrir jólahátíðina framundan og úr varð kakan Jólabomban 2021.

Ninja 3in1 Auto-iQ blandari og matvinnsluvél

Anna Guðný notaðist við þetta tryllitæki við gerð kökunnar: Ninja 3in1 Auto iQ en tækið er matvinnsluvél með blandara og glasi – allt í senn. Hnífarnir í tækinu eru úr hágæða stáli og eru hannaðir til þess að endast, en þeir eru prófaðir með því að láta þá gangast í gegnum 1000 skipti af ice-crushing kerfinu.

„ Þessi græja er mitt allra uppáhalds eldhústæki, en ég nota matvinnsluvélina mikið til þess að gera ávaxtaísa og kemst þá upp með að setja frosna ávexti án þess að þurfa mikinn vökva. Það er því mjög auðvelt að útbúa allskyns sorbeta án þess að þurfa neitt annað en ávexti. Þetta er algjör snilldar græja og maður er svo sannarlega að fá mikið fyrir peninginn með þessari græju sem sem hún er með svo mikið notagildi. Blandarinn er líka mjög öflugur og ég elska líka litla ílátið til þess að gera kasjúsósur og konfekt.“

Góð ráð fyrir jólahátíðina

„ Það sem mér finnst allra mikilvægast yfir jólahátíðina er að njóta. Þá á ég við að virkilega njóta þannig að mér líði vel á líkama og sál á sama tíma, en þannig nýt ég best. Jólin þurfa ekki að snúast um að troða endalaust af mat ofan í sig og liggja afvelta upp í sófa. Þetta er nefnilega frábær tími til þess að borða sérstaklega góðan mat stútfullan af ást og búa til fallegar minningar með sínum nánustu. Það má alveg borða allskonar óhollt en það er mikilvægt að halda áfram í heilbrigðar venjur til að líkaminn fái ekki algjört sjokk og manni líði vel.“

Heilsuráð Önnu Guðnýjar

Heilsuráð Önnu Guðnýjar til að njóta jólahátíðarinnar og halda í andlegt og líkamlegt jafnvægi um leið:

  • Haltu áfram að hreyfa þig eins og þú ert að gera venjulega. Það lætur þér líða betur andlega og þá getur þú notið betur samverunnar með sjálfum þér og/eða öðrum.
  • Endilega umkringdu þig ávöxtum. Hafðu þá á boðstólnum um leið og þú berð kræsingar fram, það má alveg hafa þetta holla í boði með kræsingunum. Yin og yang og allt það 😉 
  • Farðu daglega út í náttúruna, annaðhvort í einveru eða með þeim sem þér þykir vænt um.
  • Fáðu þér lítið á diskinn, tyggðu og borðaðu hægt. Virkileg vertu í núvitund þegar að þú borðar og hlustaðu á líkamann þegar hann hefur fengið nóg.
  • Leggðu símann frá þér og gefðu bæði þér og öðrum athygli.
  • Leyfðu innra barninu þínu að njóta sín, farðu út í snjókast, gerðu snjókall og farðu að renna. Ef rauð jól; gerðu ratleik með fjölskyldunni.
  • Ef þú ert í kringum mikið af fólki, byrjaðu daginn í einveru og jafnvel hugleiðslu. Settu orkuleg mörk og taktu frá tíma fyrir þig til að fylla á tankinn þinn þegar að þú þarft.
  • Fáðu þér hollan morgunmat, sama hvaða dagur er. Ég mæli mest með grænum þeytingi til að gefa þér fullt af vítamínum og orku á mjög auðveldan hátt. 
  • Drekktu nóg af vatni milli máltíða. Það minnkar nartþörfina og er jafnframt mikilvægt á móti öllu saltinu í jólamatnum. 
  • Sjáðu til þess að það sem þú ert að lesa eða horfa og hlusta á sé uppbyggilegt og kærleiksríkt. Það lætur þér líða betur.

Jólabomban 2021

Botn:

2 dl möndlur (bakaðar í ofni við 150°C í 15 mín)

150 g döðlur

50 g kókosmjöl

2 msk möndlusmjör

3 msk kókosolía

2 msk kakó

1/5 tsk gróft salt

Öllum hráefnunum er skellt saman í matvinnsluvélina. Stillið á hæstu stillinguna og látið hana vinna í 2-3 mínútur. Hafðu tiltækt smelluform 24 cm í þvermál og pressaðu botninum niður með skeið í formið.

Vanillulag:

350 g kasjúhnetur (lagðar í bleyti í a.m.k. 4 klst)

1 dós feit kókosmjólk

1/2 dl hlynsíróp

1/2 dl kókosolía

1 tsk vanilluduft

1 msk sítrónusafi

1/5 tsk gróft salt
Setjið öll þessi hráefni í blandarakönnuna og látið blandast þangað til allt er orðið silkimjúkt. Vanillulaginu er hellt svo yfir botninn og forminu svo skellt í frysti í 4 klst.
Karamellulag:

1 dl feit kókosmjólk (t.d. Grön Balance)

1 dl möndlusmjör

3 msk kókospálmasykur

1/2 dl brædd kókosolía

1/4 tsk vanilluduft

120 g ferskar döðlur 

1/4 tsk gróft salt

Setjið innihaldsefni í matvinnsluvélina og blandið þeim vel saman. Takið formið úr frystinum og smyrjið karamellulaginu yfir vanillulagið. Formið er svo sett aftur í frystinn.

Súkkulaðilag:

1 dl hrákakó

1 dl brædd kókosolía

1/2 dl hlynsíróp

1 msk möndlusmjör

3 msk kókosmjólk

1/6 tsk gróft salt 

Súkkulaðilagið er gert með því að láta kókosolíukrukku undir heitt vatn í vaskinum þangað til hún er orðin fljótandi. Gott er að leyfa henni að standa samt aðeins svo hún sé ekki sjóðandi heit. Henni ásamt hinum hráefnunum er svo hrært saman með písk í skál og blandað þangað til allt er orðið mjúkt. Þegar súkkulaðilagið er tilbúið er formið tekið úr frystinum og súkkulaðilaginu hellt yfir kökuna. Formið er svo sett aftur í frysti, helst yfir nótt til svo kakan sé pottþétt frosin áður en smelluformið er tekið af henni.

Athugið að það er best að láta kökuna vera í frysti þangað til hennar er notið. Gott er að gera ráð því að það taki hana 2 klst að þiðna alveg, en það má njóta hennar fyrr – þá er þetta meira eins og ískaka.

Sniðugt er að skera hana til helminga eða í sneiðar og geyma í loftþéttu íláti í frystinum til að lengja geymsluþolið.

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.