Fróðleikur Gaming

Leikjahaustið 2024

16.08.2024

Væntanlegir leikir sem þið megið ekki missa af

Sumarið er að klárast en árið er engan veginn búið. Það er nóg af leikjum sem eiga eftir að koma og Tölvuleikjaspjallið tók saman nokkra af þeim stóru sem eiga eftir að koma í sölu hjá ELKO.

Hver af þessum vekur upp mesta spennu hjá þér?


Star Wars Outlaws

PS5 – Væntanlegur 30. ágúst

Margir Stjörnustríðsaðdáendur (þar með taldir við hjá Tölvuleikjaspjallinu) hafa beðið lengi eftir leik þar sem eitthvað annan en þetta týpíska Jedi ævintýri er í boði. Nú þurfum við ekki að bíða lengur.

Í Star Wars Outlaws spilum við nefnilega sem óprúttinn glæpon. Sú heitir Kay Vess og hún er að skipuleggja risastóra ránferð til að borga upp skuld hjá stórum glæpasamtökum. Hún þarf að flakka um þekktar plánetur úr Star Wars heiminum og safna liði fyrir ránsferðina miklu. Samkvæmt framleiðandanum Massive Entertainment munu ákvarðanir Kay skipta máli upp á framvindu leiksins sem þýðir að við eigum í vændum nokkuð stóra og fjölbreytta sögu.

Ofan á þetta allt verður hægt að flakka um himingeimana í skipinu hennar Kay sem heitir Trailblazer. Við erum búin að sjá myndband af hvernig spilun er í himingeimunum og það lofar nokkuð góðu. Við erum klárlega með einn af stóru leikjum ársins fyrir framan okkur og eftirvæntingin er mikil.


EA FC 25

PS4, PS5, Nintendo Switch – Væntanlegur 20. september

Fyrri EA FC leikurinn kom út í fyrra og kynnti alls konar nýjungar. FC 25 stefnir á að hitta beint í mark með stórbættu Manager Mode ásamt nokkrum skemmtilegum viðbótum í Career Mode.

Í takt við hefðbundna RPG leiki munt þú geta valið Origin Story fyrir leikmanninn þinn. Undrabarn sem var ávallt undir mikilli pressu? Heimsklassa ungmenni sem meiddist og var á hliðarlínunni í mörg ár og er að koma til baka til að sanna sig? Kassastarfsmaður í Bónus með háleita drauma sem fær stóra tækifærið?

Við vitum ekki alveg með þetta síðasta en allt hitt verður í boði. Meiri dýpt í Career Mode ásamt áhugaverðum viðbótum við Manager Mode. Ofan á allt þetta verður nú hægt að vera knattspyrnustjóri í stærstu kvennadeildum Evrópu!


Call of Duty Black Ops 6

PS4, PS5 – Væntanlegur 25. október

Framleiðandinn Treyarch ætlar heldur betur að heilla spilara með sjötta Black Ops leiknum sem kemur í október. Leikurinn verður eins konar njósnatryllir sem gerist á tíunda áratugnum, við upplausn Sovétríkjanna. 

Helsta viðbótin sem við höfum séð nokkuð mikið af í myndböndum hér og hvar er það sem er kallað omnimovement. Það þýðir að við munum geta hlaupið, rennt okkur og dýft í allar mögulegar áttir. Þetta veitir algjört frelsi í hreyfingu.

Fjölspilarar geta hlakkað til sextán nýrra korta, tólf af þeim eru fyrir hefðbundna 6v6 leiki og fjögur þeirra eru minni strike kort fyrir fámennari leiki. Þetta verður veisla fyrir COD aðdáendur!


Assasin´s Creed Shadows

PS5 – Áætlaður útgáfudagur 15. nóvember

Eftir hávært ákall aðdáenda ætlar framleiðandinn Ubisoft loksins að gefa út Assassin’s Creed leik sem gerist í Japan. Er eitthvað sem kemur betur saman en launmorðingjasamfélag AC heimsins og dulúð japönsku ninjanna?

Leikurinn gerist á 16. Öld og við stýrum tveimur nokkuð ólíkum karakterum. Í fyrsta lagi er það Yasuke, afrískur samúræji sem var til í alvörunni, og svo launmorðinginn Naoe, eða shinobi, eins og það heitir á japönsku. 

Hægt verður að skipta á milli þessara tveggja ólíku karaktera í gegnum leikinn og virðist það ætla bjóða upp á nokkuð fjölbreytta spilunarmöguleika. Yasuke ber þau vopn sem við tengjum helst við samúræja á meðan Naoe býður aðallega upp á það sem AC leikirnir stóðu fyrir í upphafi: læðast um, stinga vonda kallinn og læðast burt. 


The Legend of Zelda: Echoes of Wisdom

Nintendo Switch – Væntanlegur 26. september

Í gegnum fjörutíu ára (!!!) sögu sína hafa Zelda leikirnir verið þekktir fyrir að vera brautryðjandi í tölvuleikjasögunni. Nintendo er alltaf að sækja hærra og hærra með hverjum leik og þessi ætlar ekki að draga úr.

Hér er um að ræða fyrsta aðal leikinn í Zelda seríunni þar sem samnefnd Zelda er aðalkarakterinn. Hún hefur ávallt verið Link til halds og trausts en nú, þrjátíu og átta árum eftir að hafa komið fram á sjónarsviðið, fáum við heilan leik með hana við stýripinnann.

Í Echoes of Wisdom hverfur söguhetjan Link í bardaga við Ganon. Zelda fær í hendurnar það erfiða verkefni að bjarga ekki bara Link, heldur öllu Hyrule konungdæminu. Spilunin lítur skemmtilega út og eiginleikar úr Breath of the Wild og Tears of the Kingdom eru til staðar, Zelda notar svokallaðan Tri Rod til að hafa áhrif á umhverfið sitt og hluti í kringum sig.

Zelda aðdáendur fá hér frábæra viðbót í Switch tölvurnar sínar og við hlökkum mjög svo til að prófa!


LEGO Horizon Adventures

Nintendo Switch – Áætlaður útgáfurdagur fyrir jól 2024

Horizon Zero Dawn kom, sá og sigraði sem einn flottasti leikur nútímans árið 2017. Framhaldið, Forbidden West var ekki síðri, enda stærri, í betri gæðum og gjörsamlega stútfullur af hlutum til að sjá og vélskrýmslum til að drepa.

Nú fáum við nýja sögu með Aloy í fararbroddi í LEGO formi! Hugsum aðeins; er eitthvað sem passar betur saman en vélskrýmslin sem við berjumst við í leikjunum og LEGO? 

Horizon leikirnir báðir bjóða upp á nokkuð þunga og alvarlega sögu, hefur að gera með endalok mannkynsins og allt svoleiðis. Lego Horizons Adventures ætlar að bjóða okkur upp á léttari upplifun, grín og glens sem öll fjölskyldan getur spilað saman.

Það sem við höfum fengið að sjá lítur nokkuð skemmtilega út. Jólakósíleikur ársins er bara mögulega strax kominn!


Aðrir leikir sem hafa áætlaðan útgáfudag fyrir jólin

  • NBA 2K25 – PS5 – Ætlaður útgáfudagur 6. september
  • Funko Fusion – Nintendo Switch – Áætlaður útgáfudagur 13 .september
  • Disney Epic Mickey Rebrushed – Nintendo Switch – 24. september
  • Super Mario Party: Jamboree – Nintendo Switch – Áætlaður útgáfudagur 17. október
  • Mario & Luigi Brothership – Nintendo Switch – Áætlaður útgáfudagur 7. nóvember
  • Just Dance 2025 – Nintendo Switch, PS5 – Áætlaður útgáfudagur í október
  • Stray – Nintendo Switch – Áætlaður útgáfudagur fyrir jól 2024


Tölvuleikjaspjallið

Tölvuleikjaspjallið eru vikulegir þættir með almennum umræðum um tölvuleiki og leikjastefnur, umsögnum um leiki auk frétta úr tölvuleikjaheiminum.

Smelltu hér til að skoða nánar á Spotify.

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.