Það ættu allir að vera farnir að þekkja döðlugott úr saumaklúbbnum, afmælum eða öllum öðrum veislum, enda syndsamlega gott.
Hér höfum við döðlugott fært upp á næsta stig, snickers-döðlu-gott!
Þessi uppskrift inniheldur bæði hnetusmjör og hnetur svo varúð, ofnæmispésar ættu ekki að lesa lengra – nema jú auðvitað er hægt að sleppa þá ofnæmisvöldunum og setja t.d. dumble eða lakkrís í staðinn.
Hér er það sem þú þarft:
- 250 gr döðlur (hægt að kaupa saxaðar)
- 110 gr smjör
- 3 msk hnetusmjör
- 1 ½ tsk vanilludropar
- 1 dl salthnetur (má saxa aðeins niður til að minnka bitana)
- 3 dl rice krispies
- 1 dl haframjöl (fínmalað í blandara (notaði Nutri Ninja)
- 80-120 gr rjómasúkkulaði (nóa hnappar) – fer eftir hversu mikið súkkulaði þú vilt hafa á)
- Áhöld: Pottur,20×20 cm Eldfast mót eða álbox, smjörpappír, töfrasproti, blandari (til að mala haframjöl).
Aðferð:
- Skerið smörið í nokkra bita og setjið í pott.
- Saxið döðlurnar eða skerið til helminga bætið í pottinn. (hægt er að kaupa Saxaðar döðlur)
- Settu pottinn á helluna og hitaðu þar til smjörið bráðnar.
- Hrærðu reglulega í pottinum og leyfðu blöndunni að malla við lágan hita í 5 mínútur.
- Taktu nú pottinn af hellunni og leyfðu blöndunni að kólna í fáeinar mínútur.
- Notaðu töfrasprota til að mauka döðlublönduna (bara í pottinum).
- Bættu við vanilludropum og hnetusmjöri og hrærðu vel saman.
- Notaðu blandara til að mala haframjölið í fínmalað hveiti. Gott er að nota líka nutribullet.
- Færðu haframjölið í skál og taktu 3 matskeiðar af döðlublöndunni og blandaðu saman við – blandan verður þykk eins og deig.
- Bættu nú Rice krispies og salthnetum við döðlublönduna sem er enn í pottinum.
- Settu smjörpappír í eldfastmót og þrýstu svo döðlublöndunni í formið á smjörpappírinn. Hafrablöndunni er svo bætt við ofan á.
- Settu þetta nú í ísskáp og leyfðu gottinu að kólna í minnst klukkustund áður en þu setur súkkulaðið ofan á.
- Bræddu súkkulaði í vatnsbaði eða í örbylgjuofni (1/3 í skál í 30 sek í 2 skipti við 700W, bæta svo rest við og hita í 25 sek í viðbót, hræra alltaf á milli og hita oftar ef þarf).
Ef þú vilt hafa þetta enn meira djúsí:
Hægt er að toppa gottið með karamellusósu (hægt að fá sykurlausa frá Callowfit) ofan á hafrablönduna, áður en súkkulaðið er sett ofan á en það má sleppa því. Einnig er hægt að setja 2 tsk af MACA dufti í döðlublönduna en það gefur örlítið núggat-karamellu keim.
Ó verði ykkur nú að góðu! Það er óskaplega gott að eiga svona gotterí í frysti og taka út með kaffinu.
Uppfært 2. maí 2023