Hugmyndir

Snickers döðlugott með kaffinu

2.05.2023

Það ættu allir að vera farnir að þekkja döðlugott úr saumaklúbbnum, afmælum eða öllum öðrum veislum, enda syndsamlega gott.


Hér höfum við döðlugott fært upp á næsta stig, snickers-döðlu-gott!

Þessi uppskrift inniheldur bæði hnetusmjör og hnetur svo varúð, ofnæmispésar ættu ekki að lesa lengra – nema jú auðvitað er hægt að sleppa þá ofnæmisvöldunum og setja t.d. dumble eða lakkrís í staðinn.


Hér er það sem þú þarft:

  • 250 gr döðlur (hægt að kaupa saxaðar)
  • 110 gr smjör
  • 3 msk hnetusmjör
  • 1 ½ tsk vanilludropar
  • 1 dl salthnetur (má saxa aðeins niður til að minnka bitana)
  • 3 dl rice krispies
  • 1 dl haframjöl (fínmalað í blandara (notaði Nutri Ninja)
  • 80-120 gr rjómasúkkulaði (nóa hnappar) – fer eftir hversu mikið súkkulaði þú vilt hafa á)
  • Áhöld: Pottur,20×20 cm Eldfast mót eða álbox, smjörpappír, töfrasproti, blandari (til að mala haframjöl).

Aðferð:

  1. Skerið smörið í nokkra bita og setjið í pott.
  2. Saxið döðlurnar eða skerið til helminga bætið í pottinn. (hægt er að kaupa Saxaðar döðlur)
  3. Settu pottinn á helluna og hitaðu þar til smjörið bráðnar.
  4. Hrærðu reglulega í pottinum og leyfðu blöndunni að malla við lágan hita í 5 mínútur.
  5. Taktu nú pottinn af hellunni og leyfðu blöndunni að kólna í fáeinar mínútur.
  6. Notaðu töfrasprota til að mauka döðlublönduna (bara í pottinum).
  7. Bættu við vanilludropum og hnetusmjöri og hrærðu vel saman.
  8. Notaðu blandara til að mala haframjölið í fínmalað hveiti. Gott er að nota líka nutribullet.
  9. Færðu haframjölið í skál og taktu 3 matskeiðar af döðlublöndunni og blandaðu saman við –  blandan verður þykk eins og deig.
  10. Bættu nú Rice krispies og salthnetum við döðlublönduna sem er enn í pottinum.
  11. Settu smjörpappír í eldfastmót og þrýstu svo döðlublöndunni í formið á smjörpappírinn. Hafrablöndunni er svo bætt við ofan á.
  12. Settu þetta nú í ísskáp og leyfðu gottinu að kólna í minnst klukkustund áður en þu setur súkkulaðið ofan á.
  13. Bræddu súkkulaði í vatnsbaði eða í örbylgjuofni (1/3 í skál í 30 sek í 2 skipti við 700W, bæta svo rest við og hita í 25 sek í viðbót, hræra alltaf á milli og hita oftar ef þarf).

Ef þú vilt hafa þetta enn meira djúsí:

Hægt er að toppa gottið með karamellusósu (hægt að fá sykurlausa frá Callowfit) ofan á hafrablönduna, áður en súkkulaðið er sett ofan á en það má sleppa því. Einnig er hægt að setja 2 tsk af MACA dufti í döðlublönduna en það gefur örlítið núggat-karamellu keim.

Ó verði ykkur nú að góðu! Það er óskaplega gott að eiga svona gotterí í frysti og taka út með kaffinu.

Uppfært 2. maí 2023

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.