Fréttir Fróðleikur Gaming

Tölvuleikir ársins 2023

14.11.2023

Arnór Steinn Ívarsson og Gunnar Björnsson eru umsjónarmenn hlaðvarpsins Tölvuleikjaspjallsins, en það eru vikulegir þættir með almennum umræðum um tölvuleiki, umsagnir um þá og leikjastefnur auk frétta úr tölvuleikjaheiminum.

Samkvæmt Arnóri og Gunnari er tölvuleikjaárið 2023 búið að vera eitt það besta, ef ekki það langbesta, í manna minnum. Við báðum því Arnór og Gunnar að taka saman vinsælustu leiki ársins, bæði nýútkomna og nokkra eldri fyrir jólin sem gætu hitt í mark fyrir uppáhalds tölvuleikjanördann þinn.


Spider-Man 2

Við erum búin að spila sem Peter Parker í Spider-Man frá 2018 og sem Miles Morales í samnefndum aukapakka árið 2020. Í Spider-Man 2 spilum við sem þeir báðir, í stærri og skemmtilegri New York borg með alls kyns nýjum möguleikum. Insomniac hafa kafað djúpt í leit sinni að ferskum óvinum köngulóanna og úr hefur orðið einn af toppleikjum ársins. Flest allt sem var ábótavant í fyrri leikjum er tekið fyrir og bætt í númer 2.

Leikurinn er gerður fyrir PS5.
Sjá hér.


EA Sports FC 24

FIFA leikurinn heitir ekki lengur FIFA heldur EA Sports FC 24. Leikurinn ersamt sem áður nýjasti leikurinn í FIFA röðinni og þú lætur hann ekki framhjá þér fara ef þú hefur fílað leikinn síðustu ár. Hægt er að spila í fótboltadeildum kvenna og karla um allan heim í allskonar gerðum með því að bregða þér í líki þíns uppáhalds liðs og merja erkifjendur. Ef þú vilt lengri og flóknari spilun getur þú búið til þinn eigin leikmann, byrjað í neðri deildum og unnið þig upp á topp. Einnig er fjandi skemmtilegt Manager Career þar sem þú ferð á hliðarlínuna, skipuleggur liðið og starfsfólk í kringum það.

Leikurinn er gerður fyrir PS4, PS5, Xbox One, Xbox Series S/X, PC og Nintendo Switch.
Sjá hér.


Assassin’s Creed: Mirage

Ubisoft tóku nokkuð djarfa ákvörðun með nýjasta Assassin’s Creed leiknum. Síðustu leikir, Origins, Odyssey og Valhalla voru heljar stórir á alla kanta, en nokkuð mikið um endurtekningar í spilun. Mirage er eiginleg andstæða þeirra. Mun styttri, innihaldið er þéttara og allt gert til að skafa óþarfa fitu burt. Það sem við fáum í hendurnar er það sem aðdáendur AC leikjanna hafa beðið um nokkuð lengi; afturkall til fyrri leikjana sem byggðu meira á því að laumupokast um og drepa skotmörk sín án þess að nokkur viti af því. Tölvuleikjaspjallið fagnar þessari breytingu. 

Leikurinn er gerður fyrir Playstation 4, Playstation 5, Xbox One, Xbox Series S/X og PC.
Sjá hér.


Dead Space

Þegar Dead Space kom út árið 2008 urðu straumhvörf, ekki bara í hryllingsleikjasenunni, heldur í tölvuleikjaheiminum öllum. Helstu eiginleikar leiksins, þröngir gangar, ógeðfelldir óvinir, skortur á skotvopnum og yfirvofandi hræðslutilfinning voru ekki nýir af nálinni – en Dead Space náði að beita þeim á einhvern einstakann hátt sem gerði svakalega spennuþrungna upplifun. Í byrjun árs var leikurinn endurgerður frá toppi til táar. Viltu láta hræða þig í 4K? Prufaðu þá að spila Dead Space!

Leikurinn er gerður fyrir Playstation 5, Xbox Series S/X, PC
Sjá hér.


Star Wars Jedi: Survivor

Stjörnustríðs aðdáendur biðu í ofvæni eftir framhaldi Fallen Order frá 2019. Jedi Survivor kom út í vor við frábærar undirtektir. Allt sem mátti bæta úr fyrri leiknum er orðið betra. Leikurinn er stærri og það er mun auðveldara að fara á milli staða. Bardagakerfið er allt annað, nú er hægt að breyta geislasverðinu til að ná yfirhöndinni gegn mismunandi óvinum.

Jedi Survivor er stórgóð skemmtun, Stjörnustríðsnördar mega ekki láta þennan fara framhjá sér.

Leikurinn er gerður fyrir Playstation 5.
Sjá hér.


Legend of Zelda: Tears of the Kingdom

Nýjasta ævintýri Link í ævintýra-heiminum Hyrule er klárlega eitt það besta. Zelda leikirnir hafa í gegnum áratugina (já, áratugina, sá fyrsti kom út árið 1986) látið reyna á alls konar mörk þegar kemur að tölvuleikjahönnun. Tears of the Kingdom er engin undantekning.

Á meðan leikurinn er nokkuð svipaður fyrirrennaranum Breath of the Wild í spilun þá bætist við alveg sturlað physics kerfi, sem gerir spilaranum kleift að búa til … tja, næstum því allt sem hugann girnist. Langar þig að búa til fúnkerandi flugvél? Þú getur það!

Ef það er Switch á heimilinu þínu en ekki Tears of the Kingdom, þá er ráð að laga það yfir jólin. Hér er á ferðinni tímalaus skemmtun fyrir alla.

Leikurinn er gerður fyrir Nintendo Switch.
Sjá hér.


Super Mario Bros. Wonder

Það er oft sagt að eitthvað sé “skemmtun fyrir alla fjölskylduna.” Nýjasti Super Mario leikurinn, Wonder, á best við þessa setningu af öllum leikjum ársins.

Fyrsti klassíski Mario leikurinn (þá svona hliðarskrollandi eins og gömlu leikirnir voru) í ellefu ár og allt var lagt í þennan. Einn til fjórir spilarar geta skemmt sér í þessum litríka og bráðskemmtilega leik. Hér er á ferðinni einn af bestu leikjum ársins, á því liggur enginn vafi.

Leikurinn er gerður fyrir Nintendo Switch
Sjá hér.


Red Dead Redemption
Red Dead Redemption var einn af bestu leikjum ársins 2009. Nú í ár kom hann út á Playstation 4 og Switch, sem var mikið fagnaðarefni, leikurinn kom einungis út á Playstation 3 á sínum tíma og því ekki hægt að spila hann á 4 eða 5. Þau sem spiluðu Red Dead Redemption 2 árið 2018 eiga hér algjöra snilld í vændum. Hér spilar þú sem John Marston og eltir uppi meðlimi gengisins sem þú taldir áður sem bræður. 

Leikurinn er gerður Playstation 4 og Nintendo Switch.
Sjá hér.



Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.