Fróðleikur

Örugg meðhöndlun raftækja með hleðslurafhlöður

15.04.2025

Hér eru einföld en mikilvæg atriði

Lithium-ion hleðslurafhlöður eru orðnar óaðskiljanlegur hluti af daglegu lífi okkar. Þær knýja síma, rafmagnshlaupahjól, hleðslubanka, ferðahátalara, rafmagnstannbursta, dróna og fjölmörg önnur tæki heima, í vinnu og á ferðalögum. En mikilvægt er að muna að þessar rafhlöður geyma mikla orku og röng meðhöndlun getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér t.d yfirhita, bruna eða í verstu tilfellum sprengingu.

Hér eru helstu atriði sem gott er að hafa í huga til að tryggja öryggi, bæði fyrir notendur og tækin sjálf.


1. Hleðslutæki skal aldrei skilja eftir í hleðslu í lengri tíma án eftirlits

Ekki skilja raftæki eftir í hleðslu yfir nótt eða í lengri tíma, sérstaklega í lokuðu eða hlýju rými. Hleðsla í skúffu, undir sæng, eða í rými með lítilli loftræstingu getur leitt til ofhitnunar og jafnvel bruna, sérstaklega ef tækið hefur orðið fyrir hnjaski eða hleðslubúnaðurinn er slitinn.

Dæmi: Hleðslubanki sem skilinn er eftir í hleðslu undir sæng getur hitnað, orðið yfirspenntur og valdið bruna.

Gott ráð: Aðeins skal hlaða raftæki þegar þú ert vakandi og í nánd. Hafðu reykskynjara þar sem raftæki eru hlaðin og takið úr sambandi hleðslutækið þegar hleðslu er lokið.


2. Aldrei skal hlaða raftæki í lokuðu eða illa loftræstu rými

Hleðsla skapar hita. Ef tæki er hlaðið í lokuðu rými eins og t.d.skúffum, undir sæng, eða í bíl í sól, getur mikill hiti myndast með aukinni hættu á bruna eða skemmdum á rafhlöðu tækisins..

Dæmi: Rafmagnshlaupahjól í hitageymslu án loftræstingar getur ofhitnað við hleðslu og rafhlaðan sprungið með tilheyrandi hættu á íkvekju. Þetta getur einnig gerst ef rafhlaða hefur orðið fyrir einhversskonar hnjaski sem oft getur verið erfitt að greina við notkun á hlaupahjólum.

Gott ráð: Geyma og hlaða skal raftæki á stað með góðri loftræstingu. Forðastu hleðslu í hlýju eða lokuðu rými. Flest raftæki þola illa mikinn hita eða kulda. Gættu þess að reykskynjarar séu alltaf þar sem raftæki eru oftast hlaðin.


3. Öruggast er að nota alltaf vottaðan og upprunalegan hleðslubúnað

Óvottaður eða ótryggur hleðslubúnaður getur valdið óstöðugri straumspennu og jafnvel eldsvoða. Þetta á við um snúrur, millistykki og hleðslutæki.

Dæmi: Sími sem hlaðinn er með óvottuðu USB-tæki getur orðið fyrir ofspennu, sem skemmir rafhlöðuna og veldur mögulega íkveikju. Það sama getur átt við ef hleðslusnúra hefur orðið fyrir hnjaski þannig að varnarkápa hleðslukapalsins sé farin að slitna. Best er að koma slíkum snúrum í endurvinnslu í þar tilgerðum skápum í næstu ELKO verslun en endurvinnsluskápa fyrir smærri raftæki, rafhlöður og snúrur er að finna í andyrum í öllum ELKO verslunum.

Gott ráð: Notaðu viðurkenndan hleðslubúnað sem er CE-merktur. Forðastu ódýrar eftirlíkingar án öryggisvottunar og forðastu að nota snúrur sem hafa orðið fyrir einhvers konar skemmdum.


4. Athugaðu ástand rafhlöðu reglulega

Bólgnar rafhlöður, hitamyndun, undarleg lykt eða breytingar á útliti eru merki um vandamál. Rafhlaða sem sýnir slík frávik getur verið hættuleg og eldhætta af henni getur verið þó nokkur. Taka skal slíkan búnað úr notkun og koma í örugga endurvinnslu sem fyrst.

Dæmi: Hleðslubanki sem byrjar að þenjast út eða lyktar af bruna á að fjarlægja og farga samstundis.

Gott ráð: Fylgstu með hitastigi og útliti raftækja, sérstaklega ef þau hafa fallið eða fengið högg. Ef rafhlaða virðist bólgin eða lykt myndast, fjarlægðu tækið og fargaðu því á réttan hátt. Raftækjum með bólgna rafhlöðu er öruggast að farga í samráði við næstu endurvinnslustöð.


5. Fargaðu rafhlöðum á öruggan hátt

Hleðslurafhlöður má ekki henda í heimilissorptunnu. Þær innihalda efni sem geta valdið eldhættu og mengun ef þær eru ekki meðhöndlaðar rétt.

Gott ráð: Fargaðu rafhlöðum og raftækjum í sérmerktum móttökustöðvum eða í endurvinnsluskápum í verslunum ELKO. Raftækjum með bólgna rafhlöðu er öruggast að farga í samráði við næstu endurvinnslustöð.


6. Ef eitthvað fer úrskeiðis – hvað skal gera?

Ef tæki byrjar að hitna óeðlilega, gefur frá sér lykt eða reyk, skaltu hætta notkun strax og fjarlægja það ef hægt er án þess að stofna þér í hættu.

Gott að hafa í huga:

  • Ekki skal nota vatn til að slökkva eld í rafhlöðu.
  • Notaðu CO₂ (koltvísýrings)-slökkvitæki eða sérstakan rafmagnsslökkva.
  • Hafðu slökkvitæki merkt og aðgengilegt í rými sem raftæki er oft hlaðin.
  • Athuga reykskynjara reglulega og ávallt hafa reykskynjara í rými sem notað er til hleðslu.
  • Hafðu neyðarnúmerin við höndina og láttu slökkvilið vita ef hætta skapast.

Að lokum: Taktu öryggið fram yfir þægindin

Við viljum að raftækin okkar endist sem lengst en öryggi kemur alltaf fyrst. Með því að tileinka okkur einfaldar reglur og venjur getum við dregið stórlega úr hættu og notið tækjanna okkar af ánægu og öryggi. ELKO mælir með að kynna sér brunavarnir t.d hjá húsnæðis og mannvirkjastofnun www.hms.is/fraedsla/eldvarnir/vertueldklar , þar má finna ýmiskonar ráð sem gott er að tileinka sér.

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.