ELKO tók stolt við menntaverðlaunum atvinnulífsins í Hörpunni á dögunum en verðlaunin hlaut fyrirtækið fyrir ötult fræðslustarf á síðastliðnum árum. Það er mikill heiður að taka við þessum verðlaunum þar sem sett hefur verið gríðarmikill metnaður og áhersla á móttöku- og þjálfunarferli fyrir nýliða ásamt fræðslu og þjálfun meðal starfsfólks okkar. Þessi verðlaun eru frábær viðurkenning á fræðslustarfi ELKO og gott veganesti til framtíðar.
ELKO kom með krafti inn á íslenskan raftækjamarkað árið 1998 og er í dag stærsta raftækjaverslun landsins. Samkvæmt Hagstofunni lækkaði raftækjaverð á markaðinum um 20% það ár enda náðist mikill innkaupakraftur í samstarfi hjá Elkjøp sem rekur hundruði verslana á Norðurlöndunum. ELKO kom inn með nýja stefnu, mikið kostnaðaraðhald og lágt verð. Árið 2019 var svo ljóst að vinningsformúla síðustu ára gengi ekki upp í ljósi alþjóðavæðingar og minni aðgangshindrana á markaðinn. Ný stefna var því mörkuð til framtíðar þar sem framtíðarsýnin var ánægðustu viðskiptavinirnir. Fljótlega í kjölfarið var lögð mun meiri áhersla á fræðslu og þjálfun sem og ánægju starfsfólks. Í kjölfar breytinga á stefnu sýndu allir mælikvarðar jákvæða aukningu. Starfsfólk var ánægðara, viðskiptavinir ánægðari og fyrirtækið hefur haldið áfram að bæta við sig markaðshlutdeild á raftækjamarkaði. ELKO rekur þrjár verslanir á höfuðborgarsvæðinu, eina verslun á Akureyri og tvær á Keflavíkurflugvelli ásamt því að reka vefverslunina elko.is og vöruhúsaþjónustu í Skarfagörðum.
Á mjög stuttum tíma fór ELKO úr því að vera vörumiðað fyrirtæki í að vera viðskiptavinamiðað. Samhliða þessarri stefnubreytingu tók fræðsla og þjálfun innan fyrirtækisins stökkbreytingu. Fljótlega varð ljóst að það þyrfti að taka þau mál fastari tökum og var ráðinn aðili í fullt starf fræðslustjóra árið 2021. Síðan þá hefur þjónustustig ELKO aukist sem og ánægja starfsfólks og þjónustusala vaxið.
Við fengum Val Hólm fræðslustjóra ELKO til þess að skrifa grein um mikilvægi fræðslu og þjálfunar innan fyrirtækisins hér fyrir neðan.
Fræðsluþörf
Hjá ELKO starfa um 250 einstaklingar og er markmiðið að allir séu vel upplýstir um fyrirtækið, vörur og þjónustu, verkferla og til hvers er ætlast af þeim í starfi. Á hverju ári eru nýliðar þjálfaðir, núverandi starfsfólk bætir við sig fræðslu og enn aðrir fá upprifjun. Í hverjum mánuði kemur fram á sjónarsviðið ný tækni og er líftími raftækja í sölu skemmri en tólf mánuðir að jafnaði. Að vinna í raftækjaverslun getur verið býsna flókið enda er líftími vara alla jafna minni en eitt ár. Starfsfólk í framlínu fær reglulega spurningar frá viðskiptavinum um ýmis tæki og tól og er jafnan beðið um aðstoð við ákvarðanir um kaup á réttu vörunni. Þetta gerir það að verkum að starfsfólk þarf að hafa bæði tæknilega þekkingu og geta hlustað á þarfir viðskiptavina. En einungis þannig getur starfsfólk mælt með með réttu vörunni sem hefur þá tæknilegu eiginleika sem viðskiptavinurinn leitast eftir hverju sinni. ELKO vill að allir viðskiptavinir séu ánægðir með kaup sín og þurfa viðskiptavinir einnig að geta treyst því að tækið sem mælt er með sé það rétta. Viðskiptavinir ganga út frá því að starfsfólk ELKO viti allt um raftæki, snjallforrit og hvað eigi að gera ef raftækið virkar ekki sem skyldi. Það er gert ráð fyrir því að starfsfólk geti leyst öll tæknimál sem koma upp og það gleymist stundum að ráðgjafar sem starfa í raftækjaverslun eru venjulegt fólk sem allflest hófu störf með lítinn sem engan bakgrunn í tækni, forritun, viðgerðum eða neinu sem tengist raftækjum. Það er svo fyrirtækið sem grípur starfsfólkið og veitir þeim þekkingu og fræðslu svo þau geti starfað sem ráðgjafar með sérþekkingu á ákveðnum vöruflokkum.
Skipulögð og markviss fræðsla
ELKO hefur virka fræðslustefnu fyrir árið og er starfsfólki kynnt fræðsluáætlun fram í tímann. Áhersla er á að upplifun starfsfólks sé jákvæð frá upphafi þar sem mikill metnaður er lagður í góða móttöku nýliða og nýliðafræðslu. ELKO ber nefnilega töluverða ábyrgð enda stoppar sumt starfsfólk stutt á vinnustaðnum meðfram námi sínu og sérhæfingu og er því enn mikilvægara að fræðslustarfið sé árángursríkt. Í grunninn er stefnan sú að þegar starfsmenn snúa aftur út á vinnumarkaðinn við starfslok séu þeir með meiri færni í starfi, hafi lært eitthvað nýtt og hugsi með hlýhug til fyrirtækisins.
Fyrirtækið hefur sett gríðarmikinn metnað og áherslu á móttöku- og þjálfunarferli fyrir nýliða ásamt fræðslu og þjálfun meðal starfsfólks okkar. ELKO rekur sinn eigin skóla þar sem kennslan fer bæði fram á staðnum og rafrænt og yfir 95% starfsfólks skráir sig inn í rafrænt fræðslu- og samskiptakerfi á mánuði. Allt nýtt starfsfólk fer í gegnum nýliðaþjálfun með þar skilgreindum starfsþjálfara á sömu starfsstöð. Þess má geta að starfsfólk tekur virkan þátt í þekkingaröflun en um 2.380 launaðar vinnustundir fóru í fræðslu og um 1.500 rafrænum námskeiðum var lokið á árinu 2023.
Fræðslupakki ELKO var svo settur á 2023 og býður starfsfólki upp á þátttöku í fjölda námskeiða sem og sveigjanleika fyrir starfsfólk í námi. Fræðslupakki ELKO var hannaður með mikilvægi fræðslu og áhuga starfsfólks í huga, en í grunninn snýst fræðslustarfið um að tryggja starfsfólki greiðan aðgang að upplýsingum og að það fái stuðning jafnt í starfi sem starfsþróun. Fyrirtækið hvetur alla til að sækja sér frekari þekkingaröflunar og sýnir ELKO með öllum þáttum skilgreindum innan fræðslupakka ELKO þar með sameiginlega skuldbindingu til að skapa menntamenningu og tækifæri til þróunar í starfi.
Haldið er utan um mælikvarða í fræðslumálum
Það er verðmætt fyrir okkur að starfsfólkið meti þá þjálfun sem það fær. Þannig getum við betrumbætt fræðsluumhverfið. Þjálfanir, námskeið og fræðsla eru mældar eftir ánægju og notagildi. Niðurstöður mælinga sem og opin svör úr könnunum eru nýttar til betrumbætingar til framtíðar. Rafrænt fræðslukerfi heldur utan um þátttöku og fjölda námskeiða sem hafa verið tekin og ánægja og notagildi eru mæld á staðkennslu og nýliðaþjálfun auk þess sem að stór árleg þjónustukönnun mælir upplifun viðskiptavina á þekkingu starfsfólks ELKO. Á hverju ári er einnig framkvæmd fræðslukönnun sem kannar hvort starfsmenn telji sig hafa nauðsynlega þekkingu til að sinna starfinu og hvort það sé eitthvað sem vanti upp á. Niðurstöður þessara kannana sýna að fræðslustarfið hefur aukið sjálfsöryggi og þekkingu starfsfólks, sem skilar sér í þjónustu til viðskiptavina ELKO.
Lærdómur og markmið
Undanfarin ár hafa verið lærdómsrík, margt sem var gert frábærlega og margt sem hefði mátt fara betur. Það sem skiptir máli er að missa ekki sjónar af markmiðinu, sem er að eiga ánægðustu viðskiptavini á raftækjamarkaði. Á nútímavinnumarkaði getum við ekki áætlað að fólk starfi hjá sama fyrirtæki til fjölda ára, þess vegna þurfa hlutverk þeirra sem koma að nýliðamóttöku að vera skýr og nýliðar þurfa að þekkja hvað ætlast er til af þeim. Fyrirtæki þurfa að halda utan um hvernig tekið er á móti starfsfólki og vera undirbúin til þess að gera úrbætur þar sem þess er krafist. Endurmenntun þarf einnig að vera skipulögð þar sem áherslur starfa breytast. Í ELKO bætast nýjar vörur í úrvalið í hverjum mánuði og það er á ábyrgð stjórnenda að útvega starfsfólki viðeigandi þjálfun. Fræðsla og þjálfun eru nefnilega algjört lykilatriði í að við getum náð framtíðarsýn okkar sem er að eiga ánægðustu viðskiptavini á raftækjamarkaðnum.