
ELKO flytur í gamla Mylluhúsið
30.06.2021ELKO og Krónan munu opna nýjar verslanir í Skeifunni 19, gamla Mylluhúsinu, um mitt næsta ár 2022. Húsnæðið er í gagngerri enduruppbyggingu og verður verslunarrýmið um 4 þúsund fermetrar þegar endurbótum lýkur.
ELKO og Krónan reka nú þegar verslanir í Skeifunni og í nýju versluninni mun verða hægt að bjóða upp á aukið vöruúrval og betra aðgengi.
„ELKO opnaði fyrst í Skeifunni árið 2004 en nú 17 árum seinna hlökkum við mikið til að taka á móti viðskiptavinum okkar í nýju og stærra húsnæði á svæðinu. Verslunin verður ein glæsilegasta raftækjaverslun landsins en hún verður sett upp í nýju útliti líkt og sjá má í verslunum ELKO á Akureyri og í Leifsstöð. Aukinn fermetrafjöldi kemur til með að hjálpa okkur að bæta enn frekar þjónustu og vöruúrval við okkar trausta hóp viðskiptavina“
– Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri ELKO.
„Skeifan er eitt öflugasta verslunarsvæði landsins og flutningur í enn stærra húsnæði gerir okkur kleift að auka verulega við vöruúrvalið og þjónustu okkar á svæðinu. Við erum virkilega spennt að opna í þessu skemmtilega húsnæði, sem verður ein stærsta verslun okkar á höfuðborgarsvæðinu. Við munum eins og ávallt leggja okkur fram um að tryggja ferskleika og fjölbreytt vöruúrval á góðu verði fyrir viðskiptavini okkar“
– Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar