
ELKO hefur opnað nýja og glæsilega verslun í Skeifunni 19
8.07.2022ELKO hefur verið með starfsemi í Skeifunni frá árinu 2004 en hefur nú flutt verslunina einungis 250 metra frá Skeifunni 7 yfir í Skeifuna 19. Nýja verslunin er í sama endurhannaða útliti og verslanir ELKO á Akureyri og í Leifsstöð, en verslunarrýmið telur 1400 fermetra og með nýjum innréttingum og sérhannaðri lýsingu er verslunin sjálf orðin ein af glæsilegustu raftækjaverslunum landsins. Aukið rými á nýjum stað þýðir einnig að hægt er að efla vöruval til muna.
Verslunin býður upp á tækni sem hefur ekki sést áður hérlendis en þar er að finna heilan vegg af sjónvarpsskjám sem viðskiptavinir geta stýrt sjálfir með símanum sínum. Einnig eru skjáir staðsettir í ýmsum deildum með margvíslegum upplýsingum fyrir viðskiptavini. Í Skeifunni er einnig salur sem verður tekinn í notkun á næstu mánuðum þar sem haldin verða námskeið og tækjakennsla.
Aðgengi að nýju versluninni er mun betra en á fyrri stað en alls eru um 150 bílastæði við verslunarhúsið nýja í Skeifunni. Fyrir rafmagnsbíla verða á svæðinu alls 20 hleðslustaurar sem kann að verða fjölgað í framtíðinni. Einnig er fyrir utan húsið ágæt aðstaða fyrir fólk sem kemur á reiðhjólum og ekki langt frá verða meginæðar fyrirhugaðar Borgarlínu. Fordyri verslunarhússins er stórt og rúmgott og þar eru möguleikar fyrir mannamót og markaðshald.
Verið hjartanlega velkomin!









