Fréttir Fróðleikur

Niðurstaða fermingarkönnunar ELKO 2025

2.04.2025

ELKO hefur nýlokið við árlega fermingarkönnun sína, þar sem yfir 4.000 manns af póstlista fyrirtækisins tóku þátt. Könnunin varpaði ljósi á eftirminnilegustu fermingargjafirnar, hvaða skemmtikrafta fólk vill helst fá í veisluna og fleiri áhugaverða þætti tengda fermingum. Fram kom að um 71% landsmanna er boðið í fermingarveislu í ár og því ljóst að fermingar verða á milli tannana á landanum næstu vikurnar.  


Höldum við í hefðirnar þegar kemur að fermingum?  

Um 70% fá rafrænt boð í veislur en einungis um 27% fá prentað boðskort. 94% svarenda fermdust í kirkju og eru niðurstöðurnar óbreyttar á milli ára.

Sérmerktar servíettur, myndakassar og nammibarir eru óþarfi í fermingarveisluna samkvæmt könnuninni, en heitir brauðréttir, pinnamatur, kaldar brauðtertur og kransakökur eru eitthvað sem kemur til með að hitta í mark.

Því er ljóst að hefðbundin nálgun í veitingaúrvali kemur til með að hitta beint í hjartastað á meðan sérmerktar servíettur eru á undanhaldi.   


Eftirminnilegustu fermingargjafanna

Græjur og úr meðal eftirminnilegustu fermingargjafanna 

Þegar spurt var um eftirminnilegustu fermingargjöfina nefndu 16% svarenda „græjur“ og var þá í flestum tilfellum átt við hinar klassísku fermingargræjur. Úr voru í öðru sæti með 12% svarhlutfall, en þar á eftir komu tölvur eða fartölvur með 7% og skartgripir með 6%.

Peningagjafir, sem löngum hafa verið algengar, voru aðeins nefndar af 5% svarenda og því ljóst að ein algengasta gjöfin er ekki sú eftirminnilegasta. Aðrar gjafir, svo sem rúm, myndavélar og utanlandsferðir komu einnig fram í svörunum, en 41% nefndi eitthvað sem féll undir flokkinn „annað“, en það bendir til mikillar fjölbreytni í gjöfum.  

Dæmi um gjafir sem fólk nefndi:

  • Snókerborð
  • Alfræðiorðabók
  • Leðurjakki
  • Folald / hestur
  • Hobbitinn
  • Starship troopers á DVD
  • Gúmmíbátur
  • Konfekt
  • GoPro myndavél
  • Tölvuskanni
  • Gítar
  • Vínglös
  • Skíðanámskeið
  • Enskuskóli
  • Áttaviti
  • Sólgleraugu
  • Trek fjallahjól
  • Rafmagnsritvél
  • Ríkisskuldabréf
  • Þjóðbúningur
  • Ruggustóll

Hvað á að gefa fermingarbarninu mikinn pening? 

Rétta upphæðin til að gefa er líklega spurning sem brennur á mörgum, enda ein algengasta gjöfin sem fermingarbörn fá. Þegar spurt var hversu háa fjárhæð fólk miðaði við sögðu um 70% að upphæðin væri á bilinu 7.000-15.000 krónur, en 15,4% miða við um 16.000-20.000 krónur. Væntanlega hefur skyldleiki við fermingarbarnið þarna einhver áhrif á upphæðina en gera má ráð fyrir að +/- 10.000 krónur sé ágætis viðmið í þessum efnum. Þegar spurt var um gjafir foreldra til fermingarbarna hækkaði upphæðin talsvert en um 45% svarenda miða við að verja um 76.000-150.000 krónum í fermingargjafir ef þau væru að ferma barnið sitt í ár.  

Hvað er efst á óskalistanum?

Þegar spurt var sérstaklega út í hvaða raftæki væru efst á óskalistanum ef fólk væri að fermast í dag voru fartölvur á toppnum, en þar á eftir komu snjallsímar, heyrnartól, snjallúr og sjónvörp. Leikjatölvur og gaming aukahlutir ásamt hár- og snyrtivörum koma einnig ofarlega á blaði. Sé horft á sömu spurningu almennt koma peningar efst á blað, svo raftæki og þar næst utanlandsferðir.  

Gera má svo ráð fyrir að hin vinsæla Ninja CREAMi ísvélin komist á óskalista landsmanna í ár hvort sem um er að ræða fermingar, brúðkaup eða jólagjafir. Vélin hefur farið sem stormsveipur um samfélagsmiðla þar sem keppst er um að deila uppskriftum af besta ísnum. Vélin var ekki valkostur í fermingarkönnuninni í ár.  

Vörumerki Apple líklegast ofarlega á listum margra 

Apple er ríkjandi vörumerki þegar kemur að umræðu um fermingargjafir hvort sem um er að ræða iPhone, Airpods, iPad eða Macbook. En taka verður fram að nær enginn munur var á iPhone og Samsung þegar spurt var um hvernig síma svarendur myndu velja sér í dag. PC tölvur fengu um 62% atvæða á móti 38% þegar samskonar spurning var lögð fyrir varðandi fartölvur.

Sé hópurinn 18-35 ára skoðaður sérstaklega segjast 47,5% frekar myndu velja sér Apple Macbook og 62% sögðust myndu velja iPhone fram yfir keppinautin. Það má því gera ráð fyrir að Apple vörur verði vinsælar í kringum fermingarnar í ár.

ELKO hefur einfaldað viðskiptavinum sínum valið á réttu fermingargjöfinni á elko.is/ferming en skilaréttur á öllum fermingargjöfum með skilamiða er til 30. Júní.  


Eiga skemmtikraftar heima í fermingarveislum?  

Þegar spurt var: „Hvaða skemmtikraft myndir þú velja til þess að koma fram í fermingarveislu?“ var Ari Eldjárn langvinsælastur með yfir 300 atkvæði en um var að ræða opna spurningu.

Aðrir vinsælir skemmtikraftar voru Herra Hnetusmjör, Laddi, Pétur Jóhann, Friðrik Dór og Steindi. Áhugavert er að sjá að þó atkvæði FM95Blö teymisins væru sett saman með atkvæðum Sveppa og Péturs Jóhanns þá kæmist hópurinn einungis í annað sæti á listanum, 45 atkvæðum á eftir Ara Eldjárni sem trónir á toppinum. Sé aldurshópurinn 18 til 35 ára skoðaður sérstaklega má sjá að Laddi og Eyþór Ingi detta út af listanum og inn koma Villi Neto og Sveppi í þeirra stað og því ljóst að Laddi er enn geysilega vinsæll meðal eldri markhópa.   

Niðurstaða fermingarkönnun ELKO 2025

Mörgum þótti of mikið lagt í fermingaveislur og allt tal um skemmtikrafta alls ekki eiga við. Um 50% svarenda þykir of mikið lagt í fermingarveislur í dag. Þá sögðu um 6% að það hefði verið skemmtikraftur í síðustu fermingarveislu sem þau fóru í og má því segja að það sé undatekning að skemmtikraftar komi fram í fermingarveislum.  

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.