Rafíþróttir njóta sívaxandi vinsælda og ELKO hefur sýnt uppbyggingu rafíþróttasenunnar á Íslandi ötulan stuðning. Aðkoma ELKO að rafíþróttum liggur ekki eingöngu í vöruúrvali og sölu heldur hefur ELKO lagt ríka áherslu á að styðja við uppbyggingu rafíþrótta með samstarfssamningum í tengslum við mótahald, fræðslu og skemmtiefni.
ELKO hefur verið stoltur bakhjarl Vodafone deildarinnar frá upphafi, nú Ljósleiðaradeildin, ásamt því að styrkja afþreyingar- og skemmtiþætti á borð við Gametíví og hlaðvarpsþætti hjá tölvuleikjaspjallinu svo eitthvað sé nefnt. ELKO kom einnig að því að setja á laggirnar Firmamóti í rafíþróttum og gerði samning við Samfés sem snýr að faglegri uppbyggingu á rafíþróttastarfi Samfés. Í kjölfar þess samnings gaf ELKO út fræðslubækling fyrir foreldra og iðkendur sem inniheldur fróðleik fyrir bæði tölvuleikjaspilara og foreldra með áherslu á heilbrigða nálgun við rafíþróttir. Með því að auka skilning á efninu má stuðla að jákvæðum samskiptum foreldra og iðkenda en í bæklingunum má finna fróðleik um áhrif og styrkleika rafíþróttafólks ásamt drögum að rafíþróttasáttmála fjölskyldunnar og nútímaorðabók tölvuleikjaspilara, svo eitthvað sé nefnt. Bæklinginn má finna hér: https://elko.is/frodleikur/rafithrottir
Nú gerum við enn betur og höfum sett upp okkar þriðja foreldrafræðslukvöld um rafíþróttir og heilbrigða nálgun þann 7. febrúar næstkomandi þar sem Arnar Hólm Einarsson fræðslustjóri Rafíþróttasamtaka Íslands flytur fyrirlestur um heilbrigða nálgun barna og unglinga við rafíþróttir.
Einnig förum við af stað með mánaðarlega fjölskylduviðburði þar sem við bjóðum foreldrum og börnum að koma að spila tölvuleiki og eiga skemmtilega og fræðandi stund saman. Við höldum svo áfram að setja inn skemmtilega viðburði fyrir fjölskylduna út árið.
Fjölskylduviðburðir ELKO og Arena
ELKO og Arena Gaming bjóða foreldrum og börnum að koma á mánaðarlega viðburði til þess að spila tölvuleiki og eiga skemmtilega og fræðandi stund saman. Það er mjög mikilvægt að nálgast tölvuleikjaiðkun með heilbrigðu og góðu hugarfari og með viðburðinum hvetjum við til jákvæðrar samverustundar þar sem foreldrar fræðast betur um rafíþróttir og prófi leiki og börnin finni fyrir stuðningi og að foreldri sýni leikjaspilun áhuga og skilning.
Daníel yfirþjálfari Arena og Arnar Hólm fræðslustjóri RÍSÍ verða á staðnum og svara öllum spurningum varðandi tölvuleiki og rafíþróttir.
Athugið að viðburðirnir er ykkur að kostnaðarlausu og við hvetjum fjölskyldur til að koma og spila saman tölvuleiki og fræðast saman.
Fjölskylduviðburðirnir verða settir á mánaðarlega þar sem foreldrar og börn fræðast betur um leiki eða keppa á móti hvor öðru. Þetta verður hörku spenna og mjög skemmtilegt. Við hvetjum alla til að kíkja við og prófa sig áfram með þjálfara.
Hægt er að sjá alla viðburði undir ELKO Gaming á Facebook hér
Foreldrafræðslukvöld ELKO um rafíþróttir og heilbrigða nálgun
ELKO býður foreldrum að koma á fræðslukvöld þar sem Arnar Hólm Einarsson fræðslustjóri Rafíþróttasamtaka Íslands flytur fyrirlestur um heilbrigða nálgun barna og unglinga við rafíþróttir og hvernig rafíþróttaiðkun getur haft jákvæð áhrif ásamt því hvernig foreldrar og börn geta átt í opnum og góðum samskiptum varðandi rafíþróttir.
Rafíþróttir eru sífellt að verða umsvifameiri í samfélaginu. Þetta á þó ekki síst við í hugarheimi barna, þar sem það er auðvelt að heillast af töfrandi heimi tölvuleikjanna. Stafrænn veruleiki getur oft verið meira spennandi en raunveruleikinn og því verður ekki neitað að með þeirri sýn þá getur það haft neikvæð áhrif á börn og unglinga. En hvernig er hægt að nýta tölvuleikjaspilun á jákvæðan, heilbrigðan og uppbyggjandi hátt og hvernig er hægt að bæta samskipti foreldra og barna í kringum rafíþróttaiðkun?
Dagskrá þann 7. febrúar. Fyrirlestur hefst klukkan 20:00 og í lokin verður opnað fyrir spurningar og umræður. Gert er ráð fyrir að fyrirlesturinn og spurningar taki 1,5 klst. Athugið að fyrirlesturinn er ókeypis.
Nánar um fyrirlesara: Arnar Hólm Einarsson er fræðslustjóri Rafíþróttasamtaka Íslands og hefur komið að rafíþróttastarfi á Íslandi síðan 2017.