Fróðleikur Gaming

Þitt eigið galdraævintýri í Hogwarts Legacy

21.03.2022

Þetta blogg er skrifað af Tölvuleikjaspjallinu í mars 2022.

Hvað ætli verði í jólapakkanum þínum í ár? Nýir sokkar, bók eða gjafakort í uppáhalds búðina þína? Kannski blanda af þessu, kannski eitthvað sem þú bjóst ekki við.

Eitt er allavega víst. Avalanche Software og Portkey Games ætla að setja einn pakka undir tréð okkar: Hogwarts Legacy, einn eftirvæntasta tölvuleik síðustu ára. Hann var áætlaður til útgáfu í ársbyrjun 2021 en seinkaði um ókominn tíma.


Fimmtudaginn 17. mars fengum við svo kynningarmyndband þar sem einhver spilun var sýnd og gert grein fyrir helstu eiginleikum. Við hjá Tölvuleikjaspjallinu erum búnir að drekka í okkur myndbandið og erum heldur betur tilbúnir í æsispennandi ævintýri. Leikurinn virðist bjóða upp á fjölbreytt opinheims ævintýri með alls kyns möguleikum, sem þýðir að bæði gall harðir Harry Potter aðdáendur og aðrir spilarar geta látið sig hlakka til.


Opinheims hlutverkaleiks ævintýri

Þú klæðir þig í skó og skikkju nýs nemanda í Hogwarts galdraskólanum á síðari hluta nítjándu aldar. Þú ræður útliti og rödd nemandans og velur svo hvort þú viljir vera seiðkona eða seiðkarl. Þú velur á milli heimavistanna fjögurra og svo hefst námið!

Í myndbandinu er gefið í skyn að aðalsagan hafi eitthvað að gera með svartálfauppreisn. Karakterinn þinn hefur einhvers konar hæfileika um fram aðra nemendur og þarf því að vera í fremstu víglínu í þeirri baráttu.

Gefið er í skyn að einhvers konar myrkari leið er í boði – hvað gæti það þýtt? Það verður áhugavert að sjá hvort spilaranum standi til boða að ganga til liðs við vondu hliðina.

Spilarar eru hvattir til að mæta í kennslustundir til að læra nýja eiginleika. Einnig verður hægt að ferðast um skólann og svæðið í kring til að finna falin leyndarmál og auka verkefni til að klára.


Ýmsir spilunarstílar verða í boði. Hægt verður að sniglast um og ganga frá óvinum í skjóli skugga, blokka galdraskot og skutla þeim aftur til sendanda og henda stærðarinnar hlutum um vígvöllinn eins og ekkert sé, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig eru í boði galdrar sem bókaunnendur eiga að þekkja til, þar sem þú getur fryst óvini þína, kveikt í þeim, afvopnað eða kastað yfir langar vegalengdir.  

Fimm hæfniflokkar verða í boði þar sem spilarar geta sér snítt sinn spilunarstíl, eitthvað sem hefði verið algjörlega ómissandi í opinheims leik eins og þessum.


Kunnugleg kerfi í nýjum búningi

Vissulega muna sum okkar eftir tölvuleikjunum sem voru framleiddir fyrir allar Harry Potter kvikmyndirnar. Sumir voru frábærir, þá helst LEGO leikirnir sem voru framleiddir árin 2010 og 2011. Kvikmyndaleikirnir voru margir hverjir góðir og þar var einmitt hægt að mæta í tíma og læra ýmist galdratengt.

Hér virðist svipað ætla vera uppi á teningnum. Kennslustundirnar verða fjölbreyttir smáleikir sem hafa áhrif á framgöngu þína í ævintýrinu.

Til að mynda verður hægt að læra að gera alls kyns seyði og mixtúrur sem gera gæfumuninn í bardögum.

Áhugaverðast er þó ákvörðunin að tengja leikinn ekki (allavega með þráðbeinum hætti) við Harry Potter heiminn. Vissulega getum við búist við páskaeggjum og tengingum í bækurnar en sagan sjálf og karakterarnir eru alveg ótengdir. Þetta gefur færi á alveg nýrri upplifun í þessum skemmtilega heim.

Við fáum að komast í kynni við dreka, berjast við tröll og fljúga um stórt opið svæðið á hippogriff. Önnur dýr og aðrar ókindir verða til staðar, sum verða til að mynda hluti af vopnabúri spilarans. Þar má nefna háværu öskurplöntuna alrúnu (mandrake) sem getur lagt heilu hópana af óvinum niður.


Fyrir tölvur með hatt og vélar með skalla

Leikurinn var fyrst kynntur á viðburði á vegum Sony og Playstation. Það voru því vangaveltur hvort um væri að ræða Playstation 4 eða jafnvel 5 leik. Það verður ekki svo.

Hann verður spilanlegur á Xbox One, Xbox Series S og X, Playstation 4 og 5, PC og að lokum á Switch. Leikurinn verður spilanlegur einhvern tímann um jólahátíðina, í takt við útgáfudag flestra Harry Potter kvikmyndanna.


Þetta blogg var tekið saman af Tölvuleikjaspjallinu.

Ef þú áhuga á tölvuleikjum og öðru því tengdu þá mælum við með hlaðvarpinu hjá Tölvuleikjaspjallinu sem er aðgengilegt á Spotify og á hlaðvarpsíðu mbl.is.

Tölvuleikjaspjallið eru vikulegir þættir með almennum umræðum um tölvuleiki og leikjastefnur, umsögnum um leiki auk frétta úr tölvuleikjaheiminum.

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.