Fróðleikur

Hvað er VR sýndarveruleiki?

25.11.2022

Ólafur Þór Jóelsson er framkvæmdastjóri Senu, forsprakki GameTíví og mikill tölvuleikjaspilari.

Við fengum Óla til þess að fara yfir hvað VR er og hvernig það hefur þróast yfir árin og hvað koma skal í þeim efnum en við teljum að VR gleraugun verði ein af jólagjöfum ársins í ár.

Hugtakið VR eða “Virtual Reality” var fyrst notað um miðjan níunda áratuginn. Á þeim tíma var verið að þróa ýmsar græjur sem áttu að færa notandann inn í aðra veröld. Eina sem hlaust af nýjunginni á þeim tíma var hins vegar höfuðverkur, sjóntruflanir og sjóveiki.

Núna rúmum þremur áratugum síðar er öldin önnur og VR er talin vera ein stærsta byltingin í spilun tölvuleikja og hvað viðkemur upplifun. Stórfyrirtæki berjast um að þróa VR-tæknina og koma henni í hendur sem flestra, meðal þeirra eru Meta, Valve, HTC, Sony PlayStation og fleiri.

Hægt er að velja um hundruð leikja og upplifana þar sem notendur geta meðal annars “ferðast” um allan heim og skoðað þar öll undur veraldar, setið fjarfundi, barist við alls kyns kvikindi í fjölmörgum hasarleikjum, tekið þátt í alls kyns íþróttum og prófað að sinna margvíslegum störfum. Allt í fullkominni þrívídd, mjög góðri grafík og góðu hljóði.

Á Íslandi hafa tvö VR-gleraugu verið hvað vinsælust, annars vegar Meta Quest 2 og hins vegar PlayStation VR fyrir PlayStation 4 tölvuna.



Meta Quest 2

Árið 2014 keypti Meta (sem hét Facebook á þeim tíma) Oculus-fyrirtækið sem var eitt af þeim fremstu í þróun VR-gleraugna. Í kjölfarið einblíndi fyrirtækið sjónum í meira mæli að VR-tækninni og hélt áfram að þróa Oculus-gleraugun, sem nú heita Meta og er þeirra allra vinsælasta vara Meta Quest 2.

Kosturinn við Meta Quest 2 VR-gleraugun er sá að þau eru algjörlega þráðlaus, á góðu verði og geta notendur þeirra keypt leiki og upplifanir í gegnum Meta Quest verslunina með einföldum hætti.

Auk þess að hægt sé að nota Meta Quest 2 gleraugun ein og sér, er einnig hægt að tengja þau við PC- tölvu til að fá betri gæði í grafíkina og að hægt sé að spila fleiri leiki. Sjá nánar á elko.is



PlayStation VR

Árið 2016 komu á markaðinn VR-gleraugu fyrir PlayStation 4 tölvuna. Þau urðu strax mjög vinsæl og greinilegt að notendur PlayStation voru heillaðir af þessari viðbót. Hægt er að fá fjölmarga leiki og upplifanir fyrir PlayStation VR og hafa gleraugun verið í stöðugri þróun þessi ár frá því að þau komu fyrst á markað og eru þau nú mun auðveldari og þægilegri í uppsetningu. Sjá nánar á elko.is



Helstu leikir og upplifanir

Það eru nánast engar takmarkanir fyrir því hvað hægt er að upplifa í sýndarveruleika. Notandinn getur stigið inn í heim vinsælla sjónvarpsþátta á borð við Peaky Blinders og The Walking Dead, og tekið þátt í Half-Life í skotleiknum, Alyx. Fyrir lofthrædda er einnig magnað að skora á sjálfan sig í The Climb 2 þar sem hægt er að klifra upp hin ýmsu háhýsi og kletta. Þeir sem elska tónlist og að dansa geta fengið útrás í Beat Saber og þeir sem vilja leysa þrautir og upplifa ævintýri geta farið í hlutverk músar í verðlaunaleiknum Moss. Þeir sem heillast af hryllingi og að láta sér bregða ættu að prófa Resident Evil 4 eða Phasmophobia. Íþróttaáhugamenn geta dottið inn í keilu í ForeVR Bowl, mínígolf í Walkabout Mini Golf eða rennt sér á snjóbretti í Carve Snowboarding. Á þessu ári munu einnig koma út eftirfarandi leikir fyrir Meta Quest 2:  Marvel´s Iron Man og Among Us.

Fyrir þá sem elska að upplifa og ferðast eru endalausir möguleikar, hægt er að ferðast um allan heim án þess að standa upp úr sófanum. Þar á meðal er leikurinn Wander þar sem þú getur ferðast um allan heim líkt og gert er í “StreetView” hjá “Google Maps”, einnig er hægt með tækninni að kynnast öllum helstu undrum veraldar sem hægt er að skoða að innan sem utan. Í Brink Travel er hægt að ferðast til fjölda staða, og þú getur fengið að heyra sögu þeirra og svifið um þá eins og þú værir á staðnum. Svo fyrir þá sem elska hafið og þá undraveröld sem þar leynist er hægt að mæla með Ocean Rift, finna Nemo, kíkja á frændur Keiko og upplifa hafið með einstökum hætti.

Næstu skref

Það er ljóst að VR-tæknin er komin til að vera og það verður gaman að sjá þróunina næstu árin og áratugina. Snemma á næsta ári munu koma út ný VR-gleraugu frá Sony fyrir PlayStation 5 tölvuna. Þau gleraugu munu heita PlayStation VR2 og verða þau mikil bylting frá síðustu gleraugum frá Sony. Upplausnin er mun hærri, nýjar græjur eru komnar til að stýra leikjunum og fjölmargir nýir möguleikar sem ekki hafa sést áður.

Einnig mun Meta halda áfram að stíga stór skref í VR-tækninni, en Mark Zuckerberg, forstjóri fyrirtækisins, á sér þann draum að færa heiminn yfir í “metaverse”, veröld sem fólk getur stigið inn í með því að setja á sig VR-gleraugu og upplifað þar nýja hluti sem viðkoma bæði leik og starfi.

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.