Fróðleikur

Hvernig finnur þú réttu tölvuna fyrir þig?

23.07.2020

Það getur virðst flókið að velja réttu tölvuna sem hentar öllum þínum þörfum. Við hjá ELKO viljum reyna að gera þér kleift að skilja þá tæknilegu hluti sem þú þarft að hafa í huga við val á tölvu. Mikilvægt er að vita í hvað þú ætlar að nota tölvuna þannig að hún standi undir væntingum.

Nauðsynlegt er að hafa í huga hve hve þung gögn þú ætlar að vinna með, hve mikið geymslurými þú þarft og hve hraðvirk fartölvan þarf að vera.

Hér eru nokkrir hlutir sem þarf að kynna sér þegar tölva er valin:

Hvernig örgjörva er tölvan með?

Það má segja að örgjörvi (e. CPU, Processor) sé heili tölvunnar. Hann sendir boð til annarra íhluta tölvunnar og stýrir flest öllu. Þegar kemur að hraða er örgjörvi líkt og bílvél í bíl. Ef vélin er öflug er bíllinn hraðskreiður, þ.e. ef aðrir íhlutir þola álagið og það myndast ekki flöskuháls. Þess vegna þurfa íhlutir að vera af svipuðum gæðum til þess að koma í veg fyrir flöskuhálsa. Öflugur bíll á lélegum dekkjum á erfitt með að koma aflinu niður á malbikið og byrjar að spóla sem orsakar verri hröðun.

Í almennum tölvum eru örgjörvar frá tveimur framleiðendum, AMD eða Intel. Þeir sem eru í ódýrari kantinum heita ýmist Celeron eða Pentium frá Intel eða Athlon frá AMD. Hraðari og betri örgjörvarnir heita Core i3, i5, i7 og i9 frá Intel en Ryzen 3, 5 og 7 frá AMD, en því hærri tölu sem maður velur þeim mun öflugri og dýrari örgjörvi.

Hvað gerir örgjörva öflugan?

Til að skilja betur hvað stýrir því hvort örgjörvi sé hraður eða ekki getum við kíkt lauslega á þrjú atriði: Klukkuhraða, kjarna og þræði.

Klukkuhraði (e. Clock speed) gefur til kynna hversu margar færslur örgjörvinn vinnur úr á sekúndu og er mældur í riðum (Hz). Sem dæmi samsvara 2 GHz 2 milljörðum færslna á sekúndu. Meiri klukkuhraði þýðir hraðari vinnsla og meiri hraði.

Fjöldi kjarna (e. Cores) í örgjörvum er mismunandi. Ef við hugsum þetta mjög einfalt þá getur örgjörvi með tvo kjarna unnið í tveimur hlutum á sama tíma í samanburði við eins kjarna örgjörva. Því miður er raunin ekki alveg svo klippt og skorin og getur fjölkjarna vinnsla reynst mismunandi þýðingarmikil á milli forrita. Við getum þó öll verið sammála um að fleiri kjarnar gefa almennt hraðari upplifun í tölvu.

Þræðir (e. Threads, Logical Processors) eru „sýndarkjarnar“, þ.e. þeir hjálpa kjörnunum með vinnuna. Til einföldunar má útskýra þræði þannig að 6 kjarna örgjörvi með 12 þræði kemur fleiru í verk á sama tíma heldur en 6 kjarna örgjörvi með 6 þræði.

Hraðaupplifun örgjörva samanstendur af samspili klukkuhraða, fjölda kjarna og þráða en það er mismunandi milli forrita hvað af þessu þrennu hefur mestu áhrifin á hraða fyrir notandann. 

Hvaða hratt er vinnsluminnið?

Vinnsluminni (e. RAM) er skammtímaminni tölvunnar. Í vinnsluminninu geymast upplýsingar tímabundið sem hægt er að ná í með ótrúlegum hraða en notandi tölvunnar geymir ekki beint gögnin sín á vinnsluminninu, heldur geymir það aðeins grunnupplýsingar fyrir örgjörvann. Helstu þættir vinnsluminnis er geymslugeta og klukkuhraði.

Með mikilli geymslugetu (mæld í GB) getur örgjörvinn unnið í fleiri forritum í einu og geymt grunnupplýsingarnar á vinnsluminninu svo  það hægist síður á vinnslunni. Ef geymslugetan er lítil getur reynst örgjörvanum erfitt að fá öll gögn sem hann þarf í tæka tíð til þess að vinna í mörgum forritum í einu og hraðinn minnkar. Klukkuhraði vinnsluminnisins, mældur í riðum (Hz), gefur til kynna hversu hratt örgjörvinn getur nálgast þessar upplýsingar.

Algeng stærð af vinnsluminni í ódýrri fartölvu eru 4 GB en þá gæti vinnsluminnið verið takmarkandi þáttur þegar unnið er í mörgum hlutum á sama tíma. 8 GB vinnsluminni er strax orðið talsvert betra og er nóg fyrir almennan notanda. 16 GB vinnsluminni eða meira er fyrir kröfuharða notendur sem vilja alls ekki að vinnsluminnið verði flöskuháls á hraða.

Hver kannast ekki við að vera með 10 „tabs“ í gangi í einu í vafranum ásamt öðrum opnum forritum og þá virðist tölvan erfiða? Með meira vinnsluminni ætti maður síður að lenda í því en svo er auðvitað góð vinnuregla að loka því sem maður er hættur að vinna í þá stundina.

Hvaða öflugt er skjákortið/skjástýringin?

Í almennum tölvum er innbyggð skjástýring í örgjörvanum. Það þýðir að tölvan getur tengst við skjá og sýnt það sem notandinn vill sjá. Ef notandinn ætlar sér að vinna í einhverskonar grafískri vinnslu eða spila tölvuleiki þá er nánast öruggt að hann þurfi sjálfstætt skjákort (e. GPU, Video Card). Helstu framleiðendur skjákorta eru AMD og Nvidia en skjákortin eru bæði mörg og flókin svo við förum ekki nánar út í týpurnar hér.

Hve mikla geymslu þarft þú?

Einhversstaðar þurfa gögnin okkar að geymast og til þess höfum við klassíska harða diska (e. Hard Disk Drive) eða SSD drif (e. Solid State Drive). Harðir diskar eru gömul tækni og eru bókstaflega hringsnúandi diskar sem gögnin eru lesin af. Þeir eru takmarkandi í hraða og eru viðkvæmir fyrir höggskemmdum en almennt séð eru þeir ódýr geymsla. SSD drif eru orðin mjög algeng og eru þau almennt séð hraðari en hafa ekki eins mikla geymslugetu og harðir diskar á sama verði. Ekki eru öll SSD drif jafn hröð, en í dag eru líklega bestu kaupin í svokölluðum NVMe SSD drifum. Þau eru orðin algeng í fartölvum sem og borðtölvum og eru frábær til að geyma mikilvægustu gögnin okkar, t.d. sjálft stýrikerfi tölvunnar, gögnin sem við notum reglulega, tölvuleiki og annað sem krefst mikils hraða. Með tilkomu skýjaþjónusta (e. Cloud Based Storage) getum við geymt gögn á „skýi“ í auknum mæli og þ.a.l. minnkað þörfina að geyma öll okkar gögn á eigin tölvu, sem þýðir að við þurfum ekki eins mikla geymslugetu og áður.

Hér er hægt að skoða úrval fartölva á elko.is.

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.