Fróðleikur

Þessi matvæli vilja forðast ísskápinn

28.09.2017

Að geyma matvælin rétt

Nú er mikil umræða í þjóðfélaginu sem snýr að því að minnka matarsóun. Einn partur af því er að geyma matvæli rétt til að þau skemmist ekki.  Það þýðir víst ekki að setja allt inn í ísskáp til að geyma sem lengst, sumt skemmist einfaldlega fyrr í ísskáp.  Hér eru nokkrar tegundir matar sem geymast betur í skáp heldur en ísskáp.

Laukur og rauðlaukur

Laukur þolir illa raka, hann verður mjúkur og getur myglað. Hann geymist best á köldum og þurrum stað. Þó ekki nálægt kartöflum því þá skemmast bæði kartöflurnar og laukurinn fyrr.

Hvítlaukur

Hvítlaukur getur mylgað eins og laukurinn í raka. Einnig vill hann gjarnan byrja að spíra ef hann er í ísskápnum. Geymdu hvítlaukinn á þurrum stað, ég veit ekki betur en að þú megir hafa hann hjá lauknum.

Kartöflur

Það er fyrst og fremst afar mikilvægt að geyma kartöflur í myrkri. Því við sólarljós verður hýðið grænleitt og þær geta byrjað að spíra, sem þýðir að það myndast sólanín í kartöflunum og það veldur meltingaróþægindum. Hvað varðar geymsu í ísskáp eða ekki í ísskáp fer eftir hvernig skal neyta þeirra. Fyrir venjulega neyslu er betra að geyma þær við ísskápshita en ef ætlunin er að nota kartöflurnar í vinnslu eins og að gera franskar þá er mælt með því að geyma þær við stofuhita. Stofuhitinn lækkar styrk afoxandi sykra en of hár styrkur veldur breytingum á áferð og bragði, einnig geta franskarnar orðið brúnar.

Tómatar

Tómatar missa bragð ef þeir eru geymdir í ísskáp því kalt loftið stöðvar þroskurnarferli þeirra. Einnig breytist áferðin á þeim. Þeir smakkast betur ef þeir eru geymdir á bekk.

Melónur

Ef melónan er fersk og óskorin geymist hún betur í stofuhita þar sem hún fær að þroskast og verða sæt. Eftir að hún er skorin þá má setja hana í ísskápinn.

Avocado (lárpera)

Það er allt í lagi að geyma avocado í ísskáp eftir að þau hafa fengið að þroskast. Hins vegar verða þau að fá að klára að þroskast við stofuhita, annars skemmast þau og ná aldrei fullum þroska.

Ávextir og ber

Apríkósur, plómur, nektarínur, kirsuber, appelsínur, epli, perur og svo framvegis vilja fá að þroskast í stofuhita (með stilkinn niður vilja sumir meina). Þegar ávöxturinn er orðinn pínu mjúkur og sæt lykt af honum þá er hægt að setja hann í ávaxtaskúffuna í ísskápnum þar sem hann getur verið í 3-5 daga.

Bananar

Bananar vija líka þroskast við stofuhita. Það má setja banana í ísskápinn en þá verður hýðið brúnt á litinn. Innihaldið getur þó verið í lagi. Margir setja banana svo í frystinn þegar þeir eru orðnir þroskaðir, til að nota í boozt eða ís seinna meir.

Basilíka og ferskt krydd

Það er víst þannig að fersk krydd rotna hraðar í ísskáp heldur en ekki. Því er mælt með því að setja kryddjurtir í glas með vatni, eins og við gerum með blóm.

Krydd

Rakinn í ísskápnum skemmir bragðið í kryddinu. Geymdu þurrt krydd á dimmum stað, það geymist oft í fleiri ár.

Brauð

Brauð verður þurrt í ísskáp. Ef þú átt sneitt brauð sem þú hyggst ekki nota næstu daga skaltu setja það í frysti. Svo er gott að setja frosið brauðið í ristavélina.

Kaffibaunir

Kaffibaunir og kaffimjöl geymist best á dimmum stað. Ísskápurinn er samt ekki góður kostur því bragð getur minnkað og meira að segja getur kaffið dregið til sín bragð úr öðrum nærliggjandi vörum. Ef þú átt mjög stórar pakkningar þá geturðu sett þær í frysti. Annars bara upp í skáp.

Hunang

Hungang endist og endist og endist. Hungang veðrur hart og leiðinlegt meðferðar ef það er geymt í ísskáp.  Miklu frekar skaltu geyma það upp í skáp, en það skemmist seint, enda meðal elstu geymsluaðferða heims!

Já, það er mjög áhugavert að kynna sér geymsluþol og geymsluaðferðir matar. Í hinum fullkomna heimi væri maður með fullkomna nýtingu á matnum en þangað til mun ég í það minnsta nýta mér þá þekkingu sem ég hef til að komast eins fjarri matarsóun og hægt er.

 

Þar til næst!

 

 

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.