Fréttir Gaming

Tölvuleikjaárið 2022

11.03.2022

Við fengum Tölvuleikjaspjallið til að taka saman hvernig árið 2022 er að byrja hvað varðar tölvuleikjaútgáfu og hvaða spennandi leikir eru væntanlegir.

Þú getur hlustað á hlaðvörpin frá Tölvuleikjaspjallinu á Spotify og á Hlaðvarp mbl.is.


Tölvuleikjaárið 2022 hefur heldur betur byrjað með stæl. Leikir eins og Horizon: Forbidden West og Elden Ring settu ákveðinn gæðastaðal sem væntanlegir leikir þurfa helst að ná. Miðað við leikina sem við ætlum að telja upp hér að neðan virðist veislan vera rétt að byrja.

Leikirnir sem við teljum upp eru flestir staðfestir til útgáfu á þessu ári en eins og er svo oft með tölvuleikjamarkaðinn þá koma frestir óumbeðnir og óvæntir. Tökum því þessum lista með smá fyrirvara!


Tölvuleikir sem eru nú þegar komnir út

Nú er mars rétt að byrja en strax eru komnir gríðarsterkir titlar á markaðinn. Af nýjum leikjum eru það fyrrnefndir Horizon og Elden Ring, ásamt Dying Light 2, Lost Ark, Gran Turismo 7 og Pokemon Legends: Arceus.

Einnig hafa nokkrir vel valdir leikir verið endurútgefnir, eins og Uncharted 4, Life is Strange og Assassin’s Creed: Ezio Collection.

Fleiri titlar hafa fengið að skína á nýjustu kynslóð leikjatölva, þá helst má nefna að Cyberpunk spilast eins og allt annar leikur á Playstation 5 og Xbox Series X.

En við ætlum ekki að dvelja of lengi við fortíðina, hvaða leikir vekja mesta eftirvæntingu?


Væntanlegir leikir

Ghostwire: Tokyo

25. mars á PC og Playstation 5.

Því meira sem maður sér um þennan leik því minna veit maður. Framleiðendur The Evil Within leikjanna koma hér með gríðarlega spennandi sögu sem lofar áhugaverðri spilun. Einn af leikstjórum leiksins lýsir bardagakerfinu sem sambræðing af karate og göldrum. Þarf að segja meira?

Allir íbúar Tokyo borgar hafa horfið sporlaust og í þeirra stað eru ókindir að handan komnar til að valda usla. Spilarinn stýrir Akito, sem andinn KK tekur yfir og gefur yfirnáttúrulega krafta.

Leikurinn kemur út 25. mars næstkomandi á PC og Playstation 5. Hann gengur til liðs við lítinn hóp leikja sem virðist einungis ætla að koma út á fimmunni, hann verður samkvæmt því sem við vitum í dag ekki spilanlegur á Playstation 4.


Tiny Tina’s Wonderlands

25. mars á PC, PS4, PS5, Xbox One, XBOX-S og XBOX-X.

Ef þú hefur einhvern tímann staldrað við spurninguna “Hvað vantaði eiginlega í Borderlands?” þá svarar þessi kolbrjálaði leikur þeirri spurningu hátt og snjallt. Leikurinn er framhald Tiny Tina’s Assault on Dragon Keep, sem var aukapakki fyrir Borderlands 2 frá árinu 2013.

Þessi mun halda í þemu frá Borderlands seríunni en virðist ætla byggja enn meira á þemum aukapakkans sem var byggður upp eins og Dungeons and Dragons ævintýri.

Tiny Tina verður sagnameistari í ævintýrinu og stýrir spilaranum – eða allt að þremur spilurum saman – í gegnum alls kyns rugl og vitleysu. Aðdáendur Borderlands leikjanna geta varla ímyndað sér hvað er í vændum.

Þú býrð til þinn eigin karakter frá grunni sem er talsverð breyting frá seríunni. Þú færð meira frelsi til að byggja upp eiginleika og bardagastíl.

Eins og áður kom fram geta allt að þrír spilað leikinn saman. Það verður bæði hægt í gegnum netið OG með eld gömlu split-screen stemminguni!

Leikurinn kemur út 25. mars á PC og báðar kynslóðir Playstation og Xbox.


LEGO Star Wars: The Skywalker Saga

5. apríl á PC, Switch, PS4, PS5, Xbox One, XBOX-S og XBOX-X

Mörg okkar hugsa með hlýhug aftur til ársins 2006 þegar tveir eftirminnilegustu leikir samtímans komu út á Playstation 2, tveir LEGO Star Wars leikir þar sem hægt var að spila í gegnum allar sex myndirnar. Já, það var einu sinni einfaldur tími þar sem Star Wars aðdáendur höfðu einungis sex leiknar kvikmyndir til að hámhorfa og stúdera.

Nú ætlar þessi leikur loksins, LOKSINS að koma út! Hér verður hægt að spila í gegnum níu myndirnar í Star Wars seríunni. Aðdáendur gömlu leikjanna og nýir LEGO spilarar geta hlakkað til fjölbreyttrar spilunar, en LEGO leikir nútímans hafa algjörlega stökkbreyst frá gömlu góðu dögunum.

Spilanlegir karakterar verða í kringum 400 (!!!) sem er talsverður fjöldi, þó er það nokkuð víst að til að fá alla karakterana þarf að borga fyrir sérstaka útgáfu. Grunn leikurinn virðist ætla vera með í kringum 300 stykki.

Þú spilar vissulega í gegnum myndirnar en sagan verður einnig sögð í gegnum samskipti þín við aðra karaktera og með því að klára aukaborð. Upplifunin verður fjölbreytt og skemmtileg fyrir alla aldurshópa.

LEGO leikir hafa í gegnum tíðina sannað sig sem stórskemmtileg fjölspilunar upplifun. Hægt er að spila í gegnum leikinn einn en það er alltaf mælt með því að hafa með sér félaga. Leikirnir eru einstaklega aðgengilegir, þá sérstaklega fyrir fólk sem spilar ekki mikið af leikjum almennt.

Þú getur spilað með makanum, krökkunum, vinum þínum eða hverjum sem er!

Leikurinn kemur út 5. apríl á allar helstu leikjatölvur og á PC.


Saints Row

23. ágúst á PC, PS4, PS5, Xbox One, XBOX-S og XBOX-X.

Það verður áhugavert að sjá hvert þessi leikur fer. Saints Row hafa ætíð verið vinsælir sem eins konar “brjálaðri” útgáfa af Grand Theft Auto.Síðustu færslur í seríunni hafa ekki vakið mikla lukku og mun þessi leikur vera endurræsing á öllu klabbinu.

Stemmingin verður talsvert rólegri, ekki eins brjáluð og teiknimyndaleg, en spilarar geta skoðað sig um borgina Santo Ileso. Borgin er í heljargreipum þriggja stóra gengja og þarf spilarinn að koma í gang sínu eigin teymi til að róa öldurnar og taka yfir.

Fjölspilunarmöguleiki er í boði fyrir þau sem vilja.

Endurræsingin kemur út 23. ágúst á allar helstu leikjatölvur og PC.


Forspoken

5. október á PC og Playstation 5

Teymið á bak við Final Fantasy XV framleiðir þennan áhugaverða leik sem blandar saman göldrum, hraðskreiðu ferðakerfi yfir opið landslagið og hlutverkaspilunareiginleikum.

Spilarinn stýrir ungri konu að nafni Frey Holland sem er færð á dularfullan hátt frá þægilegu lífi sínu í New York til fantasíuríkisins Athia.

Samkvæmt Square Enix mun leikurinn nýta getu Playstation 5 til hins ýtrasta og verður því spennandi að sjá hvað verður í boði.

Leikurinn kemur út 5. október.


Gotham Knights

25. október á PC, PS4, PS5, Xbox One, XBOX-S og XBOX-X.

Myndasöguaðdáendur og í rauninni allir geta tekið gleði sinni yfir því að þessi leikur er loksins kominn með staðfestan útgáfudag. Eftir margra ára framleiðsluferli vitum við nákvæmlega hvenær við fáum að stýra karakterum eins og Robin, Nightwing, Red Hood og Batgirl í þessum spennu-hlutverkaleik.

Myrki riddarinn, lærifaðir hetjanna, virðist hafa fallið frá. Þau þurfa að taka sig saman og leysa ráðgátuna á bak við hvarf hans ásamt því að berjast við hið dularfulla og valdamikla Court of Owls.

Fleiri skemmtilegir óvinir úr heimi Batman koma fram og takast á við söguhetjurnar.

Þrátt fyrir að tengjast Arkham seríunni á nokkra vegu er um að ræða glæ nýja sögu í nýjum heimi. Bardagakerfið sem Arkham serían náði heimsfrægð með hefur verið fært í nýjan búning og lofar mjög góðu.

Persónurnar fjórar koma á sjónarsviðið þann 25. október næstkomandi.


Starfield

11. nóvember á Xbox Series S og X og PC

Þetta útspil Bethesda mun vekja athygli hvort sem leikurinn endar vel eða illa. Um er að ræða fyrsta upprunalega titil fyrirtækisins í meira en 25 ár, en bæði Elder Scrolls og síðustu Fallout leikir hafa runnið undan rifjum Bethesda.

Todd Howard sjálfur lýsir leiknum sem Skyrim úti í geim, sem ætti að fanga athygli mjög margra. Við getum búist við stórum og fjölbreyttum opnum heimi með alls kyns fylkingum sem spilarinn þarf að skoppa á milli.

Það var umdeilt þegar Microsoft keypti Zenimax og lýsti því yfir að Starfield og fleiri Bethesda leikir yrðu einungis í boði á Xbox og á PC. Playstation spilarar verða því miður að redda sér öðru hvoru til að spila þennan eftirvænta leik.

Hann kemur út ellefu árum eftir útgáfu Skyrim, þann 11. nóvember. Það er aldrei að vita hvað við eigum í vændum!


Væntanlegir leikir án dagsetningar

Fleiri leikir hafa verið staðfestir í ár en hafa ekki enn fengið útgáfudag.

Þar trónir helst á toppi framhald hins geysivinsæla God of War frá 2018.

Sá leikur, Ragnarök, lofar afskaplega góðu. Þar fáum við að hitta fleiri persónur úr norrænni goðafræði, ásamt því að Kratos og sonur hans Atreus munu pottþétt flakka á milli fjölbreyttra goðaheima og valda þar usla.

Hann verður spilanlegur á bæði Playstation 4 og Playstation 5 á útgáfudegi.

Hogwarts Legacy er annar leikur sem hefur því miður verið frestað oftar en einu sinni. Spilarar stjórna nemanda í Hogwarts galdraskólanum í kringum lok nítjándu aldar. Þú býrð til þinn eigin karakter og getur þróað hann að vild.

Það kom heldur betur á óvart þegar Suicide Squad: Kill the Justice League leikurinn var kynntur svo að segja upp úr þurru. Teymið hefur öðlast nýfundna frægð eftir að hafa komið fram í tveimur kvikmyndum (ein talsvert betri en önnur …) og því margt til að hlakka til.

Ef marka má myndbönd úr leiknum virðist hann ætla svipa aðeins til óvænta hittarans Guardians of the Galaxy.

Einnig viljum við vekja athygli á einum mjög áhugaverðum leik, en það er Trek to Yomi. Honum hefur verið lýst sem Ghost of Tsushima í tvívídd en um er að ræða svarthvítan samúræjaleik sem spilast á hlið. Lúkkið svipar mjög til gömlu Kurosawa myndanna og lofar afskaplega góðu.


Ef þú áhuga á tölvuleikjum og öðru tengt því mælum við með hlaðvarpinu hjá Tölvuleikjaspjallinu sem er aðgengilegt á Spotify og á hlaðvarpsíðu mbl.is.

Tölvuleikjaspjallið eru vikulegir þættir með almennum umræðum um tölvuleiki og leikjastefnur, umsögnum um leiki auk frétta úr tölvuleikjaheiminum.

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.