Fréttir

25 ára saga ELKO

28.02.2023

ELKO kom með krafti inn á íslenskan raftækjamarkað árið 1998 og er í dag stærsta raftækjaverslun landsins. Samkvæmt Hagstofunni lækkaði raftækjaverð á markaðinum um 20% enda náðist mikill innkaupakraftur í samstarfinu hjá Elkjop sem rekur hundruði verslana. Þess má til gamans geta að árið 1998 var Nokia 3210 vinsælasti farsíminn á markaðinum.  

Fyrsta verslunin opnaði í Smáratorgi og var það ekki sældarleikur þar sem brunakerfi hússins fór í gang daginn fyrir opnun og mátti sjá rennvot gólf og tæki út um allt. Stórfjölskyldan sem átti fyrirtækið og allir tiltækir starfsmenn samstæðunnar voru kallaðir út til að hreinsa upp vatnið fyrir opnun. Það tókst á endanum og opnaði verslunin með 70 metra langri biðröð viðskiptavina í fleiri klukkustundir á meðan að 15 stiga frost var úti og þurfti að hleypa inn í hollum. Verslunin var í byrjun opin til 20 á kvöldin og var þetta fyrsti stórmarkaður með raftæki á Íslandi. Gefið var út 16 síðna aukablað með Morgunblaðinu á opnunardag. Í fyrsta skipti á Íslandi var boðið upp á 30 daga skilarétt og 30 daga verðvernd óháð því hvort varan hafi verið notuð. 

Dagana á eftir voru samkeppnisaðilar ELKO inntir eftir þeirra viðbrögðum og var á tímabili orðað svo að raftækjaslagur væri í vændum og aðrir nefndu titring á markaðinum. Einn samkeppnisðili brá á það ráð að loka verslun sinni á opnunardag ELKO og opna svo með „nýrri verðlagningu“ daginn eftir.  Samkeppnisðilar þess tíma voru s.s. Raftækjaverslun Íslands sem var með samning við Expert, Japis, Hátækni og fleiri aðilar. Skemmtileg staðreynd er að BT opnaði sama dag og ELKO 28.febrúar 1998 og var umræða í fjölmiðlum að nú væri hafið góðæri á Íslandi og gósentíð fyrir raftækjakaup.  

Árið 2004 opnaði ELKO svo sína aðra verslun í ELKO Skeifunni. Augljóst var að pláss væri á markaðinum fyrir fleiri raftækjaverslanir. Það tók þó tíma fyrir verslunina að ná sínum stalli enda er Skeifan og nærumhverfi mikið samkeppnissvæði en það tókst eftir reglubundnar markaðsaðgerðir. Einingin er síðan búin að vera í gegnum árin sú önnur mikilvægasta í ELKO.  

Árið 2007 var stórt ár. Líklegast er það stærsta að iPhone kom út með byltingarkenndan síma en á sama ári náði ELKO rekstrarleyfissamning við ISAVIA um opnun verslunar í Leifsstöð. Á sama ári hóf ELKO sölu á viðbótartryggingum og fyrsta vefverslun með raftæki leit dagsins ljós www.elko.is. Árið 2007 var því tímamótaár í sögu ELKO. Verslun í Leifsstöð var okkur frekar framandi þar sem engir tollar né virðisaukaskattur var á vörum þar uppfrá og töluvert hagstæðara fyrir viðskiptavini að versla þar vörur. Skakkaföll hófust þó strax árið eftir þegar algjört hrun var á markaðinum og flugferðir drógust saman umtalsvert. Það tók því þónokkur ár að ná rekstrinum saman eftir það. Að reka verslun á flugvallarsvæðinu hefur ekki verið án bakfalla s.s. með bankahruni, eldgosi og covid.  

Á því herrans ári 2008 færði ELKO sig svo úr Smáratorginu í nýtt húsnæði sem þáverandi eigendur byggðu undir starfssemi Krónunnar, ELKO og Intersport. Flutningurinn reyndist mjög gott skref fyrir félagið enda voru gríðarleg samlegðaráhrif með systurfyrirtækinu Krónunni. Síðan frá opnun hefur ELKO í Lindum verið oft á topp 5 lista yfir veltuhæstu verslanir í Elkjop keðjunni sem eru samtals 400 talsins.  

Árið 2010 var ákveðið að færa út kvíarnar meira og var opnuð ný ELKO verslun innan BYKO verslunar á Granda. Opnunardagurinn var risastór en ekki alveg án skakkafalla enda klikkaði tölvukerfið hjá okkur sem ýkti raðirnar ennþá meira.   

Árið 2013 urðu svo algjör tímamót í sögu fyrirtækisins þegar tilkynnt var að selja ætti ELKO og systurfélög til fjárfestingasjóðsins Stefnis. Þarna fór ELKO úr því að vera lítið fjölskyldufyrirtæki inn í næsta tímabil í sínu lífi. Með nýjum eigendum komu öðruvísi áherslur og var uppbygging fyrirtækisins í forgrunni með tilheyrandi fjárfestingu í framtíðinni. Strax í kjölfar kaupanna var farið í endurnýjun ELKO í Skeifunni sem opnaði árið 2014 í nýju gjörbreyttu útliti og með stærri gólfflöt. 

Árið 2015 var svo ELKO í Lindum endurnýjuð með glænýju útliti og vara sama ár vörumerki ELKO endurhannað. Öllum skiltum, markaðsefni og rödd vörumerkisins var breytt. ELKO var í fyrsta skipti síðan 1998 stigið inn í framtíðina.  

Árið 2016 var ný vefverslun opnuð á nýjum grunni og öll áhersla lögð á stafræna þróun til framtíðar enda var útséð að framtíðin lá í vefsölu. Sama ár var Grandi stækkaður umtalsvert og fékk sitt eigið rými utan BYKO. Í lok ársins 2016 hóf ELKO svo alvöru Svartan Fössara tilboð eins og þau höfðu ekki sést áður. Þetta virtist falla vel að landsmönnum og liðu ekki mörg ár áður en fleiri dagar höfðu bæst við s.s. dagur einhleypra og stafrænn mánudagur. Þetta ár á Íslandi var upphafið að því sem er oft kallaður fimmti ársfjórðungurinn, tilboðsdagarnir rétt fyrir jól.  

Í fjölda ára hafði verið lagður munaðarskattur á raftæki eða 25%. Skatturinn skaðaði samkeppnishæfni íslenskra raftækjasala verulega og var loks á endanum gjöldin afnumin í byrjun árs 2017. ELKO hafði nú þegar hafið verðlækkun á tækjunum 6 mánuðum á undan á völdum tækjum og á endanum voru öll tæki lækkuð þann 1.janúar 2017. Brugðið var á það ráð að geyma raftækin á tollfrjálsum lager alveg þangað til 2.janúar þegar þau voru leyst út og fullar birgðageymslur á nýju kostnaðarverði lágu fyrir.  

Síðla árs 2017 var svo komið að einu stærsta verkefni ELKO frá upphafi. Síðan 1998 hafði ELKO verið í sölukerfi byggt á DOS, kerfinu AS400, sem hafði meira til en skilað sínu hlutverki. Nú var svo komið að einungis tveir aðilar á Íslandi gátu viðhaldið kerfinu af einhverju viti og var það gríðarleg áhætta fyrir ELKO. Farið var í innleiðingu á nútímakerfi, Microsoft NAV. Það var gríðarleg breyting sem hafði áhrif á alla starfssemi fyrirtækisins – en til hins betra. Við tóku nútímavinnubrögð og fjölmargir möguleikar til viðbótar í stafrænni þróun.  

Árið 2018 hófst með nýjum eigendum að félaginu og voru ELKO og Krónan sameinuð N1. Sameiningin gekk vel og reyndist þetta vera gríðarlega jákvætt skref fyrir félögin enda náðist umtalsverð hagkvæmni stærðarinnar. 

Árið 2019 voru ákveðin stórtíðindi þegar ELKO tilkynnti að hætt væri að bjóða upp á DVD og BluRay myndir til sölu. Afþreying hafði verið risastór tekjulind í vöruflokkasafni ELKO í mörg ár og nú hafði tækninni fleygt fram, streymisveitur teknar við og nauðsynlegt að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Starfsfólk ELKO hugsar oft með fortíðarþrá til gömlu dagana þegar var hægt að kaupa sér ódýrt DVD fyrir helgina á „tvennutilboði“.  

Árið 2020 náði ELKO áframhaldandi rekstrarleigusamning upp í Leifsstöð og farið var í framkvæmdir á nýrri verslun ELKO í Leifsstöð. Þegar framkvæmdir hófust skall Covid á sem engan grunaði að ætti eftir að hafa svo stór áhrif á fyrirtækið í þrjú ár. Framkvæmdir voru því unnar í tómri flugstöð án áreitis, lán í óláni fyrir framkvæmd en virkilega erfitt fyrir reksturinn. Framkvæmdin gekk því hrikalega vel en opnun verslunar var fyrir tómum brottfararsal og voru viðskiptin mögur fjölmarga mánuði á eftir. Sama ár voru framkvæmdir ELKO á Akureyri settar af stað. Framkvæmdinni miðaði vel áfram en svo þegar samkomutakmörkunum var skellt á landið gerðist það flóknara. Skipta þurfti versluninni upp í hólf með sér salernisaðstöðu fyrir hvern hóp. Framkvæmdin dróst því töluvert á langinn og ekki náðist að opna verlsunina fyrr en seint í desember og náðist aðeins hluti af jólasölunni í gegn það árið. Fyrsta rekstrarárið á Akureyri gekk þó glimrandi vel og auðséð að Akureyringar tóku ELKO með opnum örmum, viðskiptavinaánægja mældist sú hæsta sem og starfsmannaánægja. Verslun ELKO á Akureyri er gríðarlega mikilvæg eining fyrir ELKO í norðurhlutanum.  

Vegna breytts samkeppnislandslags og hamla sem fylgja því að vera í markaðsráðandi stöðu varð aðgreining á verði mun erfiðari en áður. Ljóst var að vegið yrði að kjarna vörumerkisins ef ekkert yrði að gert. Stjórnendur þurftu að horfast í augu við að vinningsformúla síðastliðinna tuttugu ára var  komin á endastöð og nauðsynlegt að endurhugsa hlutina. Það var því ráðist í stefnumótun, ítarlegar rannsóknir voru gerðar á vörumerkinu, varðandi upplifun viðskiptavina, samkeppnisaðila og ytra umhverfi félagsins. Í kjölfarið var unnin ný stefna, sem byggð var á faglegum rannsóknum og aðferðum sem var samþykkt á haustmánuðum árið 2019. Árið 2020 hófst innleiðingarferli sem stefnt er að verði í stöðugri vinnslu næstu árin. Við innleiðingu hefur hverjum steini verið velt, skipuriti félagsins var breytt, allir ferlar unnir upp á nýtt og árangursmælikvarðar endurskoðaðir. Ekki hafði Covid teljandi áhrif á innleiðingu nýrrar stefnu, allt starfsfólk ELKO tók þessu fagnandi og tók ekki marga mánuði til að allir gengu í takt: ELKO ætlar sér að eiga ánægðustu viðskiptavinina á raftækjamarkaði.  

Með nýrri stefnu kom stóraukin áhersla á stafræna þróun. Það leið því ekki á löngu þar til mínar síður á elko.is voru opnaðar. Stuttu á eftir var verðsaga á elko.is kynnt til leiks til að auka gegnsæi og traust á ELKO. Svo í lok 2021 var opnaður nýr vefur til að mæta auknum kröfum neytenda á netviðskiptum með glænýrri leitarvél.  

Árið 2022 voru svo umskipti þegar Framkvæmdastjóri ELKO, Gestur Hjaltason sem hafði starfað í 20 ár með fyrirtækinu ákvað að fara á eftirlaun. Eftirmaður hans Óttar Örn sem hafði starfað við hlið hans í 18 ár tók við. Í kjölfarið voru nýjar áherslur settar fram til að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækisins til framtíðar. ELKO ætlar sér að bjóða upp á bestu verslanirnar, bestu þjónustuna, besta vinnustaðinn og vera best í stafrænni þróun. Breytingar voru gerðar á forstöðumannahóp í ELKO til að styðja við framþróun bæði í stafrænum málum sem og til að styðja við langtímaáætlunina. Á árinu var svo gamla verslun ELKO í Skeifunni flutt nokkur hundruð metra yfir á nýja staðsetningu við hlið Krónunnar. Framkvæmdin gekk vel og opnuðu verslanirnar saman með pompi og prakt um sumarið og hefur verslunum verið gríðarlega vel tekið á svæðinu. Lögð var mikil áhersla á framúrskarandi baksvæði fyrir starfsmenn sem og nýtísku verslun fyrir viðskiptavini.  

Framtíðin hjá ELKO er mjög björt. Langtímaáætlanir eru að ganga eftir, framþróun á fullu skriði og starfsfólkið að ganga í takt.  
Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.