Hugmyndir

5 leiðir til að borða hollt

24.01.2018

„Líkaminn er musteri okkar“ höfum við heyrt oftar en einu sinni.
Það er samt rétt!
Nú er janúar á enda og febrúar að taka við. Margir byrjuðu í sínu árlega janúar átaki og svo er meistaramánuðurinn sjálfur framundan! Það er hvetjandi að setja sér markmið varðandi mataræði þar sem mataræði er örugglega 80% ástæðan fyrir líkamsástandi okkar. Við þurfum samt að hugsa þetta lengra, að borða hollt er stærra er kúrar, þetta er lífstíll. Ef maður getur tamið sér að borða hollt í einhvern tíma fer líkaminn að venjast hollri fæðu og kallar sjaldnar á óhollt. Að sjálfsögðu er samt allt í lagi að fá sér óhollt inn á milli, en það eiga ekki að vera verðlaun, rétt eins og að borða hollt er ekki refsing.

Hér eru 5 einfaldar leiðir til að venja sig á að borða hollari kostinn

1. Vatn í stað sykurdrykkja

Þetta er grundvallaratriði. Ef þú ert vanur/vön að fá þér djúsglas eða jafnvel gosglas með máltíðum, hvort sem það er með sykri eða sætuefnum, skiptu því út fyrir vatn eða kolsýrt vatn. Þér má finnast eins og eitthvað vanti með máltíðinni en það er aðeins vaninn. Brátt munt þú kunna betur að meta vatnið og matinn sjálfan. Leggðu svo í vana þinn að vera ávallt með vatn nálægt þér yfir daginn til að fá þér sopa af og til.

2. Út með einfaldan/óhollan skyndibita

Það þarf enginn að sannfæra þig um að þú eigir skilið að innbyrða hreina og holla fæðu. Þú veist að þú átt það skilið. Ef þú ert mikið að kaupa þér mat á ferðinni þá er hollari kostur ekkert endilega dýrari en óhollur kostur. Í þokkabót, þegar þú borðar næringarríka fæðu þá stendur máltíðin lengur með þér og þú upplifir síður sveiflur sem kalla á aukabita eða sætindi. Ég skil tilfinninguna þegar valið stendur á milli holla kostsins og óholla og maður verður smeikur um að maður verði ekki nógu saddur af holla kostinum, hann fylli ekki eins mikið. Það er aðeins hugarástand sem venst með tímanum. Mundu, þetta er allt saman vani.. að velja hollari kostinn verður þér eðlislægt.

3. Skipulag einfaldar hlutina

Ef þú ert með áhyggjur af því að það taki of mikinn tíma að undirbúa hollar máltíðir eða of kostnaðarsamt þá eru þær áhyggjur óþarfar.
Það er lítið mál að leggja í vana sinn að skipuleggja vikuna á sunnudegi. Hvað ertu að fara að gera næstu 5 daga? Hvenær þarftu að borða? Hvað eru þetta margar morgun/hádegis/kvöld máltíðir sem þú þarf að útbúa (að undanskildum matarboðum eða öðrum tilefnum)? Undirbúðu fyrirfram hvað þú ætlar að borða. Finndu góða samsetningu af máltíð, eldaðu eða undirbúðu og skammtaðu í box fyrir hvert skipti. Ef þetta þolir illa geymslu í ísskáp getur þú stungið boxinu í frysti, tekið út og sett í ísskáp kvöldið/daginn áður en þú ætlar að borða máltíðina. Þetta þarf ekki að vera eins alla daga, þú getur t.d. útbúið kjúklingarétt eða fiskrétt og sett í tvö box, gert svo salat eða vefju úr afgangnum og nýtt aðra tvo daga. Svo getur þú bætt við td grænmeti eða sósu kvöldið áður en þú ætlar að borða þetta og geymt í ísskáp yfir nóttina. Þú getur útbúið lasagna, gúllas, súpu eða hvað sem er líka, skammtað niður og sett í frysti.
Hvort sem þú getur ekki byrjað daginn án þess að borða eða borðar ekki fyrr en rétt undir hádegi þá er gott að græja morgunmatinn fyrirfram. Taktu 5 box, settu t.d. hafra, smá korn/fræ og skammtaðu í boxin. Kvöldið áður en þú ætlar að borða morgunmatinn skaltu bæta t.d. einni tsk af hnetusmjöri eða möndlusmjöri, frosnum berjum, kókosflögum, kanil eða því sem þér dettur í hug og svo mjólk/möndlumjólk/kókosmjólk… Þig fer að hlakka til að fá þér að borða daginn eftir.
Ef þér hentar illa að hafa matinn tilbúinn er þó gott að hafa matseðilinn út vikuna skráðan og hráefnin til í ísskápnum til að forðast þann hausverk alla daga.

Þú getur fundið alls konar hugmyndir á netinu til að hjálpa þér af stað. Googlaðu „meal prep“ og þú ert komin/nn af stað.

4. Þú borðar ekki það sem er ekki til

Útbúðu innkaupalista áður en þú ferð í búðina og haltu þig við hann. Ekki kaupa óhollt. Ekki kaupa kex, nammi, snakk, skyndibita í frystinn o.þ.h. Ef þetta er ekki til á heimilinu þá er það ekki borðað, sama hversu marga hringi við förum í gegn um skápana í eldhúsinu.
Ef það er til, þá er það borðað.

5. Þegar þig dauðlangar í eitthvað, fáðu þér

Það er algengt að fólk gefi sér svindl daga eins og t.d. á laugardögum. Loksins þegar laugardagurinn rennur upp fer maður á stjá og gúffar í sig óhollustu, af því að það er laugardagur. Það er alger óþarfi.

Ef þig langar alveg svakalega í súkkulaði á þriðjudegi… fáðu þér bara einn lítinn bita af súkkulaði (einn lítinn bita, ekki stykki). Bíddu smá og sjáðu hvort þetta hafi ekki slegið á þörfina. Oft er þetta líka líkaminn að kalla á eitthvað annað, vítamín (ávexti?), vatn, fitu, kolvetni, prótein. Það er óþarfi að láta sér líða illa yfir litlum súkkulaðibita ef þú veist að þú ert að fylgja réttu mataræði 80% tímans.

 

Mundu að þetta er lífstíll, ekki megrunarkúr. Hollur matur þýðir ekki hitaeiningasnauður/kolvetnaskertur/fituskertur. Við þurfum fitu og kolvetni. Hollur matur er fjölbreytt og lítið unnin fæða. Korn, hafrar, egg, kjöt, fiskur, grænmeti, hnetur, möndlur, ávextir o.s.frv.
Við skulum huga að því sem fer ofan í okkur og hvað það gerir fyrir líkama okkar (MUSTERI). Ekki gera allar breytingar í einu, taktu eitt og eitt atriði í einu, bættu til hins betra og þegar það er orðinn vani, taktu þá næsta atriði í gegn! 🙂

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.