Hugmyndir

Auðveldara að vakna á morgnana!

21.09.2017

Nú nálgast október óðfluga og rútínan er komin í gang.

Haustin finnst mér alltaf frekar hugguleg og ég tek skammdeginu fagnandi! Ég tek sumarbirtunni að sjálfsögðu líka fagnandi – tilbreytingin sem fylgir hverri árstíð hefur sína kosti. Það vill þó vera örlitið erfiðara fyrir okkur að vakna á morgnana þegar líður á haustið, sökum myrkurs.

Klukkan á Íslandi er á Greenwich tíma sem er um einu og hálfu tímabelti austar en Ísland. Þannig að við erum í raun flest að fara á fætur um miðja nótt til að mæta í vinnu og skóla. Vegna þess erum við að þröngva líkamsklukkunni okkar í rangan takt.

Við erum með innbyggða líkamsklukku sem hefur áhrif á svefn- og vökumynstrið okkar. Líkamsklukkan stjórnast að miklu leyti af reglubundnum birtubreytingum og birtubreytingar hafa áhrif á framleiðslu hormóns í heilaköngli sem kallast melatónín. Því meira melatónín því meiri þreytu finnum við fyrir. Myrkur hefur örvandi áhrif á framleiðslu melatóníns og því þreytumst við í myrkri. Dagsbirtan, hins vegar, minnkar framleiðsluna og því verðum við hressari í birtu.

Þar sem dagsbirtan er af skornum skammti yfir vetrarmánuðina getur það leitt til ójafnvægis í dægursveiflu og valdið svefnvandamálum. Relgubundinn svefn er afar mikilvægur og nauðsynlegt að fara að sofa á svipuðum tíma á kvöldin og vakna á sama tíma á morgnana. 

Við Íslendingar erum flest orðin vön þessum aðstæðum en þó eru einhverjir sem eru viðkvæmir fyrir myrkrinu á morgnana. 

Hvað er hægt að gera til að auðvelda okkur?

Ein lausn er að nota dagsbirtulampa. Dagsbirtulampar voru fyrst þróaðir til að mæta þörfum þeirra sem þurftu á birtu að halda í líkingu við dagsbirtu vegna takmarkaðs aðgangs þeirra að alvöru dagsbirtu. Þetta voru t.d. hermenn sem sinntu skyldum sínum um borð í kafbátum svo vikum skipti eða geimfarar o.s.frv. 

Við fengum dagsbirtulampa í jólagjöf frá bróður mínum síðustu jól, Philips wake up, og hefur hann komið sérlega vel að notum, hann svínvirkar. Við stillum t.d. vekjaraklukkuna alltaf á 07:00 og um 06:00 byrjar hægt og rólega að birta til inn í herberginu. Þegar klukkan er orðin 07:00 þá er orðið fullbjart og vekjaraklukkan hringir (eða kviknar á útvarpinu, við erum oft með stillt á útvarpið). Við vöknum mun betur og tilbúin í daginn, því líkaminn hefur fengið að undirbúa sig fyrir að vakna!

Við fundum nú ekki mikið fyrir áhrifunum í sumar þar sem við erum ekki með myrkvunargardínur og var því bjart alla nóttina en þetta kemur sér vel aftur núna þar sem það er byrjað að dimma á morgnana.

Þar til næst!

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.