Hugmyndir

Hátíðaruppskriftir

29.11.2022

Berglind Hreiðarsdóttir er mikill matgæðingur en kökur og kökuskreytingar hafa átt hug hennar allan í nokkur ár. Berglind heldur úti matarblogginu gotteri.is þar sem finna má girnilegar og gómsætar uppskriftir af fjölbreyttum mat, eftirréttum og veislumat.

Við fengum Berglindi til að deila með okkur nokkrum uppskriftum sem eiga það allar sameiginlegt að innihalda kaffi. Góð kaffivél getur nefnilega nýst til að útbúa alls kyns gotterí. Fyrir áhugasama er hægt að skoða fleiri uppskriftir á gotteri.is eða á instagram undir nafninu Gotterí og gersemar.


Ertu jólabarn?

Berglind segir að hún sé ansi mikið jólabarn og að hún elski aðdraganda jólanna og aðventuna mjög mikið.  „Að baka og dúllast með fjölskyldu og vinum yfir þennan árstíma er dásamlegt og þá sérstaklega þegar piparkökubaksturinn hefst því þá kemur svo góð lykt í húsið og það skapast einnig svo góður samverutími. Svo hef ég gaman af því að setja út jólaljós og ganga um og skoða ljósin í bænum. Snjór setur auðvitað punktinn yfir i-ið yfir hátíðarnar ef hann lætur sjá sig og góður göngutúr í kuldanum og heitur kaffi- eða kakóbolli og smákökur þegar inn er komið er til dæmis einföld og yndisleg stund.“


Hvernig eru jólin heima hjá þér?

Berglind segir að það sé ekki mikið um hefðir um jólin fyrir utan að borðhald hefjist alltaf stundvíslega á slaginu sex þegar jólin hringja inn. „Mamma og pabbi koma alltaf í mat til okkar á aðfangadag og svo á pabbi afmæli á jóladag svo við erum mikið með þeim þessa hátíðisdaga á meðan tengdafjölskyldan hittist öll um áramótin. Undanfarin ár höfum við oftast verið með bæði hamborgarahrygg og rjúpur á aðfangadag en það er þó ekkert heilagt í þeim málum hjá okkur og allt í lagi að breyta líka stundum til. Við vorum til dæmis í Asíu fyrir nokkrum árum og þá var heljarinnar asísk veisla með vinum okkar á aðfangadag og það var algjörlega dásamlegt líka. 


Tiramisu-uppskrift
Uppskrift dugar í 5-7 glös (eftir stærð)

Innihaldsefni

 • 4 eggjarauður
 • 140 g flórsykur
 • 500 g Mascarpone-rjómaostur við stofuhita
 • Fræ úr einni vanillustöng
 • 190 ml þeyttur rjómi
 • 230 ml sterkt uppáhellt og kælt Java Mokka kaffi
 • 4 msk Galliano Ristretto strong espresso líkjör
 • Um 2 pakkningar af Lady fingers kexi (hver pakki er 125 g)
 • Bökunarkakó til skrauts

Leiðbeiningar

Þeytið saman eggjarauður og flórsykur þar til blandan er orðin létt og þykk (um 5 mín). Bætið þá Mascarpone- ostinum og vanillufræjum saman við blönduna og þeytið vel saman. Þegar blandan er orðin vel þeytt saman er þeytta rjómanum bætt við með sleif.

Hellið næst kaffi og Galliano Ristretto saman ofan í djúpan disk og dýfið Lady Fingers kexinu snöggt upp úr vökvanum á báðum hliðum en passið þó að rennbleyta það ekki svo kexið verði ekki lint og slepjulegt. Næst raðið þið kexinu í botninn á glösunum sem þú ætlar að bera þau fram í, það má vel brjóta kexið niður eftir hentugleika.

Gott er að setja eggjablönduna í sprautupoka og sprauta yfir kexið áður en næsta lag er sett ofan á með sambærilegum hætti. Plastið og kælið í að minnsta kosti 4 klukkustundir (eða yfir nótt). Setjið að lokum bökunarkakó í sigti og stráið yfir glösin. Gott þykir að gera þessa uppskrift deginum áður og geyma í kæli og sigta kakóið yfir rétt áður en rétturinn er borinn fram.


Espresso Martini með súkkulaðikeim
Uppskrift dugar í 2 glös

Innihaldsefni

 • 100 ml Tobago Gold súkkulaði/romm líkjör
 • 60 ml vodka
 • 120 ml kalt espresso kaffi
 • 1 tsk hlynsýróp
 • 1 lúka af klökum

Leiðbeiningar

Setjið öll innihaldsefni í hristara og hristið vel þar til froða myndast. Hellið drykknum í gegnum sigtið á hristaranum í tvö glös og skreytið með því að sigta bökunarkakó yfir og nokkrum kaffibaunum.


Kaffimarengs

Marengsbotn

Innihaldsefni

 • 6 eggjahvítur
 • 150 g sykur
 • 330 g púðursykur
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft (e. Cream of Tartar)

Leiðbeiningar

Byrjið á að hita ofninn í 120°C. Setjið eggjahvíturnar í skál og þeytið þær þar til þær freyða. Takið næst aðra skál og blandið saman sykri og púðursykri og setjið saman rólega við eggjahvíturnar í litlum skömmtum. Þeytið vel saman þar til topparnir halda sér vel, en lækkið þá hraðann og bætið vínsteinslyftiduftinum saman við og blandið saman í stutta stund.

Leggið næst bökunarpappír á bökunarplötu og teiknið hring sem er 23-35 cm í þvermál. Hellið blöndunni í miðju hringsins og reynið að móta nokkurs konar grunna skál, en gott þykir að ýta fyrst upp úr miðjunni til hliðanna og gara síðan með spaða að utanverðu allan hringinn og draga í sveig upp og ofan í holuna. Bakið marengsinn í 110 mínútur og leyfið honum síðan að kólna í ofninum áður en krem og fylling er bætt á.

Kaffikremsuppskrift

Innihaldsefni

 • 70 g brætt smjör
 • 180 g flórsykur
 • 30 g bökunarkakó
 • 2 tsk vanilludropar
 • 4 msk heitt uppáhellt meðalristað kaffi

Leiðbeiningar

Setjið öll innihaldsefni saman í skál og pískið þeim saman. Hellið kreminu yfir marengsbotninn, bæði ofan í holuna og upp á kantana svo aðeins leki niður. Næst fer rjómafyllingin yfir kremið.

Rjómafylling

Innihaldsefni

 • 4 msk kalt, uppáhellt meðalristað kaffi
 • 500 ml rjómi
 • Hershey‘s kisses og bökunarkakó til skrauts

Leiðbeiningar

Setjið kalt kaffi og rjóma saman í skál og þeytið þar til orðið er stífþeytt. Setjið fylllinguna ofan í holuna á marengsbotninum og aðeins upp á kantana. Sigtið smá bökunarkakó yfir rjómann og skreytið með Hershey‘s kossum.


Súkkulaðiískaffi
Uppskrift dugar í um 2 glös

Innihaldsefni

 • 150 ml G-mjólk
 • 150 ml Hleðsla með súkkulaðibragði
 • Klakar
 • Kaffifroða (sjá uppskrift hér að neðan)
 • Bökunarkakó

Leiðbeiningar

Hrærið saman G-mjólk og Hleðslu, hálffyllið glas með klökum og skiptið blöndunni niður í glösin. Toppið með kaffifroðu og stráið smá bökunarkakó yfir. Hrærið síðan öllu saman og njótið.

Kaffifroðuuppskrift

 • 2 msk skyndikaffi
 • 2 msk sykur
 • 2 msk sjóðandi vatn

Þeytið allt saman þar til létt og ljós kaffifroða hefur myndast. Áferðin á að minna á þeyttan rjóma.


Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.