Hugmyndir

Heimagert spínat pasta!

7.02.2018

Pasta á rétt á sér allan ársins hring!

Í kuldanum og myrkrinu kallar líkaminn á orku og þá jafnast ekkert á við heimagert rjómalagað spínat pasta með kjúklingi, beikoni, öllum heimsins ostum og smá grænmeti. Svo á sumrin myndast þessi ítalska sumarstemmning og þá er dásamlegt  að dunda í eldhúsinu og  útbúa heimagert ravioli með ítalska tónlist í bakgrunninum.

Hvítt pasta vill oft vekja einhverja sektarkennd hjá manni en um leið og það er orðið grænt!? Já þá er það nú önnur ella! Hér höfum við því uppskrift að spínat pasta sem passar í hvaða pasta útfærslu sem er!

Innihald:

300 gr  frosið spínat  (getur að sjálfsögðu líka notað ferskt, hitt er bara svo þæginlegt og til í frysti!)
9,5 dl hveiti (má nota aðra kosti ef þú vilt reyna við lágkolvetna útfærslu)
4 stór egg
1 matskeið vatn
1 klípa af grófu sjávarsalti

Aðferð:

Saxaðu spínatið vel og reyndu að ná sem mestum vökva úr því. Gott að þrýsta með pappír eða viskustykki þegar það er þiðnað.

Settu spínatið og hveiti í skál og hrærðu þar til það hefur blandast vel saman og spínatið komið vel í sundur. Bættu þá við eggjunum og vatni, haltu svo áfram að blanda þessu saman í svona 30 sekúndur. Skiptu nú yfir í hnoðarann (ef þú ert með hrærivél, annars hnoðaru bara allt í höndunum) og hnoðaðu í 2 mínútur. Settu deigið á borð og haltu áfram að hnoða aðeins í höndunum. Ef deigið er blautt bætirðu bara við hveiti þar til áferðin er orðin eins og stífur leir og deigið ekki klístrað.

Nú er gott en ekki nauðsynlegt að leyfa deiginu að standa í 30 mín áður en farið er að fletja út.

Þegar deigið er flatt úr er auðvitað snilld að vera með þar til gerða vél eins og t.d. Kitchenaid eða PastaBasta. Þá er líka hægt að leika sér með hvernig pasta þú ætlar að gera.  Annars er líka hægt að fletja út með kökukefli og skera.

Skiptu nú deiginu í 8 parta og byrjaðu að fletja út. Gerðu það aftur og aftur og alltaf aðeins þynnra og þynnra. Stundum er gott að brjóta það saman í tvennt og rúlla aftur í gegn til að fá heilli áferð.  Ef deigið fer að klístrast þá stríkur þú það bara með smá hveiti.

Þegar deigið er orðið alveg vel flatt út skaltu skipta yfir í t.d. linguine hnífinn og ræma það niður. (Skera með hníf eða pizzuskera ef þú ert að gera þetta í höndunum).

Þá er það bara að sjóða pastað! Mundu að setja pastað ekki út í vatnið fyrr en það er farið að sjóða! Og settu ögn af sjávarsalti út í vatnið.

Það eru til óteljandi útfærslur af sósum og svoleiðis en hér er ein sáraeinföld.

Kirsuberjatómatar, ólívuolía, salt, pipar og pastakrydd. Einnig er gott að bæta við basilíku og skera niður mozzarella og parmesan ost.

Skelltu öllu á pönnu (ekki ostunum ef þeir eru) og steiktu örlitla stund.

Já það er ekki meira mál en þetta að búa til pasta frá grunni! En svo er endalaust hægt að leika sér með hvernig pasta maður gerir; spínat, sveppa, papriku, tómat, rauðrófu, gulróta…

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.