Uppskriftir

Hvað á að vera í matinn á Gamlárskvöld? Uppskriftir frá BaraMatur

27.12.2023

BaraMatur er uppskriftasíða með því markmiði að vera með einfaldar og góðar uppskriftir ásamt fallegum myndum og stílgreinni uppsetningu. Leiðarljós þeirra er að gera eldamennsku nógu einfalda svo að hver sem er geti fylgt leiðbeiningum og eldað góðan mat.

Hverjir eru á bakvið BaraMatur og hvaðan kom hugmyndin?

Þeir eru tveir og heita Geir Gunnar Geirsson og Einar Sigurður Eiríksson. Þeir kynntust þegar þeir voru báðir búsettir í Valencia á Spáni og það má segja að hugmyndin hafi kviknað á gangi um borgina þegar þeir fóru um göturnar og sáu í hvarvetna glaðvært fólk á spjalli yfir góðum mat. Þeir sögðu að borðin þar hefðu svignað undan kræsingum úr bestu hráefnum heims – allt var svo ferskt, svo óskaplega einfalt, afslappað og ódýrt. Þeir hafi þá pælt í því af hverju þetta væri ekki svona heima á Íslandi – þetta er ekkert flókið: Bara matur. Góður matur á viðráðanlegu verði úr vönduðum hráefnum gleður alla, hvar svo sem þeir eru í heiminum. Og þetta er það sem þeir vilja gera; gleðja fólk með góðum mat. Semsé: Bara matur.

Þeir segja að þótt þeir séu kannski ungir að árum þá hafi þeir báðir ansi langa reynslu af matvinnslu og veitingamennsku. Geir starfaði hjá Stjörnugrís frá því hann var 13 ára svo hann hefur mikla reynslu á matargerð og hefur eldað allt heima hjá sér síðan hann man eftir sér og Einar vann sem þjónn í 7 ár og þar kviknaði ástríða fyrir matargerð og víni. Nú starfa þeir báðir hjá fyrirtækinu og þróa starfsemi BaraMatur samhliða því.

Hvernig tókuð þið hugmyndina áfram?

Einar: Geir átti hugmyndina á að búa til instagram reikning með mataruppskriftum fyrir um ári síðan en það var ekki fyrr við byrjuðum að vinna saman sem við ákváðum að taka þetta á næsta stig. Við vissum ekkert hvernig fólk myndi taka í þetta því það eru svo margir aðrir að gera eitthvað á svona slóðum en við bara stóðumst ekki mátið, við ráðum ekkert við það hvað við erum sólgnir í að elda góðan mat og skrifa um hann. Fyrir utan matargerðina og veitingamennskuna þá höfum við báðir líka ágætis færni í grafískri hönnun. Við einbeittum okkur því einnig að Instagram reikningi sem er ólíkur öðrum í útliti og virkni. Við notumst við “flettur” mynd, innihald, aðferðir, innkaupalisti og verð í verslun er allt tengt einni birtingu.

Geir: Það er í fyrsta skipti sem það hefur verið gert á þennan hátt hér á landi. Þessi reikningur varð svo miklu stærri en við þorðum að vona. Við botnum eiginlega ekkert í þessum miklum viðtökum og erum eiginlega jafn hrærðir og heimalagað skyr með bláberjum. Vegna þessara óvæntu viðtaka höfum við nú farið út í að framleiða eigin matvörur og eru nokkrir vöruflokkar komnar til sölu í öllum Nettó verslunum. Fleira er á leiðinni, svo sem sósur og krydd.  

Hvernig eru áramótin hjá ykkur? 

Geir: Áramótin hjá mér í ár verða ólík öllum öðrum áramótum sem ég hef upplifað. Ég mun eyða þeim erlendis, nánar tiltekið á Valencia á Spáni. Við verðum með gott fólk hjá okkur í mat þar sem ég ætla að elda nauta Wellington ásamt meðlæti. Svo kíkjum við eflaust út um miðnætti á stórt torg hér nálægt og sjá hvort að Spánverjarnir skjóti jafn mikið upp og við Íslendingarnir. 

Einar: Áramótahefðin mín hefur í mörg ár verið að þjóna fólki sem vill fara út að borða á gamlárskvöldi og eru það líka langskemmtilegust vaktirnar. En nú í ár þá ætla ég að gera vel við mig með fjölskyldunni en við byrjum á að skála með freyðivíni og borða rækjukokteill, svo í aðalrétt verður hreindýr og opnum góða
rauðvínsflösku. Að lokum verður heimagerður ís og smá púrtvín.

Við fengum strákana frá BaraMatur til þess að deila með okkur uppskriftum af forrétt og aðalrétt fyrir gamlárskvöld.


Rækjukokteill

Fyrir 4
Undirbúningstími 20 mín.

Innihaldsefni

    • 150g rækjur

    • 100ml mæjónes

    • 2 msk sýrður rjómi

    • 1 msk Worchestersósa

    • 1 msk Tabasco sósa

    • 1 tsk sítrónusafi

    • 1 msk rifin piparrót

Leiðbeiningar: Byrjið á því að blanda saman mæjónesi, sýrðum rjóma, worschester sósunni og tabasco og setjið saman í matvinnsluvél eða blandara. Rífið svo piparrótina niður og setjið hana út í blönduna ásamt sítrónusafa. Setjið næst sósuna í skál og bætið rækjunum við og setjið filmu eða álpappír yfir og geymið í kæli í nokkrar klukkustundir – þá helst yfir nótt. Næsta dag þá fyllið þið nokkur kokteilglös af blöndunni og raðið rækjubitum meðfram glasbrúninni.

Tilvalið heimilistæki til að nota: Ninja 3-í-1 Auto-iQ matvinnsluvél og blandari.


Hægelduð kalkúnabringa

Fyrir 6
Undirbúningstími 3,5 klst. 

Innihaldsefni

    • 1,8 – 2 kg kalkúnabringa

    • 250g smjör

    • 2 msk rósmarín

    • 1 msk sítrónupipar

    • 1 msk salt

Leiðbeiningar: Byrjið á að bræða smjörið í potti og setjið kalkúnabringuna í sous-vide poka. Þegar smjörið er orðið bráðið þá setja það í pokann ásamt rósmarín, sítrónupipar og salti. Nuddið allt til í pokanum svo kalkúnabringan sé vel marineruð og lokið svo pokanum vel með því að vacumpakka honum. Fyllið nægilega stórt ílát eða pott af vatni og stillið sous vide tækið ykkar á 65°C og setjið pokann ofan í og eldið í kringum 3 klukkustundir. Takið kalkúnabringuna því næst úr pokanum og brúnið hana á pönnu á öllum hliðum til þess að fá fallegan brúnan lit.

Tilvalið heimilistæki til að nota: Sous Vide tæki og Sous Vide lofttæmingarvél ásamt vacuum pokum


Hátíðarsósa

Fyrir 4
Undirbúningstími 25 mín.

Innihaldsefni

    • 500 ml vatn

    • 1 stk kjötkraftur

    • 3 msk sterkt sinnep

    • 350 ml malt

    • 1 msk púðursykur

    • 6 stk stórir sveppir

    • 150 ml rjómi

    • 3 msk hvítvínsedik

    • 1 msk smjör

    • Maizena til þykkingar eftir þörfum

    • Sósulitur eftir þörfum

Leiðbeiningar: Steikið sveppina á pönnu með klípu af smjöri. Næst setjið þið vatn, kjötkraft, sinnep, malt og púðursykur saman í pott. Hrærið vel og sjóðið. Til að þykkja sósuna þarf að blanda saman Maizena og vatni og hrista saman og bæta rólega út í sósuna og hræra vel saman. Setjið næst út í rjómann og sveppina og smakkið til með salti og pipar. Að lokum er gott að bæta við hvítvínsediki í sósuna til bragðbætingar ásamt sósulit.

Tilvalið heimilistæki til að nota: Ninja 3-í-1 Auto-iQ matvinnsluvél og blandari.


Smelltu hér til að skoða Instagram síðu BaraMatur.

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.