Hugmyndir

Hvað er að grilla á beinum og óbeinum hita?

24.04.2018

Þú getur búið til mismunandi grill fleti á grillinu sem gefa mismunandi hita. Það kallast að vera með beinan hita og óbeinan hita, hvort sem þú kýst að grilla á kolum eða gasi.

Það er mjög hentugt að nýta sér þá tækni til að grilla ýmsar gerðir af mat á sama tíma án þess að missa stjórn á elduninni.

Að grilla á beinum hita

Að grilla á beinum hita er svipað og að steikja á háum hita. Maturinn er eldaður á funheitum fletinum. Fyrir jafna eldun er æskilegt að snúa matnum einu sinni yfir allan grilltímann. Þú getur notað beina hitann fyrir mat sem eldast á innan við 25 mínútum eins og; steikur, kótilettur, pylsur og grænmeti. Beinn hiti er líka nauðsynlegur til að loka kjöti almennilega, þá myndast falleg skorpa og svona karamelliseruð áferð þar sem maturinn snertir grindina. Þú færð einnig falleg grillför á yfirborðið og þetta einstaka grillbragð.

Hvernig eldar þú á beinum hita á kolagrilli

Staðsettu matinn á grindina beint yfir heitum kolunum þegar þau eru tilbúin og lokaðu grillinu. Opnaðu grillið aðeins til að snúa matnum og svo til að athuga hvort maturinn sé fulleldaður.

Hvernig eldar þú á beinum hita á gasgrilli

Forhitaðu grillið með alla brennara stillta á hæsta hita. Þegar grillið hefur náð hita, leggðu matinn á grillið og aðlagaðu hitann eftir því hvað þú ert að elda. Lokaðu grillinu og opnaðu það aðeins til að snúa matnum og svo til að athuga hvort maturinn sé fulleldaður.

Að grilla á óbeinum hita

Að grilla á óbeinum hita er svipað og að steikja í bakaraofni nema þú færð þessa einstöku grilláferð sem þú færð ekki í ofni.  Hitinn stígur upp í lokið og verður jafn inn í öllu grillinu, þannig getur þú hægeldað matinn jafnt á öllum hliðum. Hringrás hitans inn í grillinu virkar eins og í bakaraofni, þess vegna þarftu ekki að snúa matnum. Það er gott að nota þessa aðferð þegar þú ert að grilla mat sem krefst 25 mínútna eða lengri eldunartíma eða þegar þú ert að grilla matvæli sem eru viðkvæm fyrir beinum hita og myndu brenna fljótt. Sem dæmi má nefna rif, kjúklingur, kalkúnn, stórir kjötbitar, fiskflök, lambalæri, hryggur ofl.

Hvernig eldar þú á óbeinum hita á kolagrilli

Kveikið upp í kolunum (gott að nota kolauppkveikjupott) og þegar kolin eru klár skaltu koma kolunum vel fyrir öðrum megin í grillinu. Þannig heldur þú hitanum inn í grillinu en ert ekki með hita beint undir matnum. Það er gott að leggja álbakka undir sem safinn og fitan getur lekið ofan í. Ef eldunartíminn verður langur er einnig gott að hafa smá vatn í álbakkanum svo fitan brenni ekki.  Hafðu lokið á grillinu og opnaðu það aðeins til að taka stöðuna þegar þú telur að eldunartíminn er að verða búinn.

Hvernig eldar þú á óbeinum hita á gasgrilli

Hitið gasgrillið með öllum brennurunum. Þegar það er orðið heitt, stillið þá hitastigið upp á nýtt eftir því hvað þið eruð að elda og slökktu alveg á hitanum þar sem þú ætlar að hafa matinn.  Það er gott að leggja álbakka undir sem safinn og fitan getur lekið ofan í. Ef eldunartíminn verður langur er einnig gott að hafa smá vatn í álbakkanum svo fitan brenni ekki.

 

 

Mundu þó að hvort sem þú ert að grilla á beinum eða óbeinum hita, hafðu lokið alltaf á.

 – Og smá tips í lokin! Ef þú ert að grilla á óbeinum hita, leggðu álbakka undir grindina þar sem kjötið liggur þannig að safinn sem kemur frá kjötinu geti verið notaður í sósu.
Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.