Fróðleikur Gjafalistar

Hvernig væri að eiga góðan hárdag – alla daga?

30.11.2022

Theodóra Mjöll S. Jack er hárgreiðslukona og vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur unnið sem hárgreiðslukona í nítján ár og gefið út þrjár bækur um hár undir sínu eigin nafni og aðrar fimm bækur í samstarfi við Disney-samsteypuna ásamt því að hafa unnið fyrir öll helstu tískutímarit heims. Árið 2021 stofnaði hún svo sitt eigið hárvörumerki sem ber heitið THEA sem er í stöðugri vöruþróun. Við fengum Theodóru til þess að fara yfir nokkrar hárvörur úr vöruvali okkar, sem gætu auðveldað hárformun um jólin. 

Hvernig hugum við vel að hárinu?

„Það sem þarf fyrst og fremst að hafa í huga eru réttu hárvörurnar fyrir þína hárgerð. Hárið á okkur breytist með tímanum, með mismunandi litunum og klippingum og árstíðum og svo má áfram telja. Það er mjög gott að fá ráðleggingar frá hárgreiðsluaðila þínum um hvernig vörur þú ættir að nota miðað við þína hárgerð. En það er eitt sem allar hárgerðir eiga sameiginlegt og það er að hárið getur skemmst ef mikill hiti er notaður á það í langan tíma án þess að nota hitavörn. Til að koma í veg fyrir að hárið skemmist vegna hita frá raftækjum (krullujárni, sléttujárni, blásara, blástursbursta o.fl.) er best að setja alltaf hitavörn í hárið, og þá í blautt hárið eftir að það er þvegið. Í sumum tilfellum er gott að bæta í og setja einnig hitavörn í þurrt hárið áður en slík tæki eru notuð.“

Hvað er efst á óskalistanum fyrir jólin?

„Það sem er efst á óskalista mínum í ár er nýtt Apple Watch snjallúr, series 8. Ég nota mikið snjallúr og finnst gott að geta fylgst betur með heilsunni með hjálp úrsins. Annars er ég mjög veik fyrir góðum nuddtækjum og er Beurer herða- og axlanuddtækið ofarlega á óskalistanum. Þar sem ég bý miðsvæðis í Reykjavík þá verð ég að setja rafmagnshlaupahjól á óskalistann, en það myndi gera mér lífið mun auðveldara ef ég ætti eitt slíkt.“ 

Hvaða hártæki rata á óskalista þinn í ár? 

„Þau hártæki sem mér finnst mest spennandi eru Dyson Airwrap hármótunartækið, Dyson Supersonic hárblásarinn, Revlon-hárburstinn, Babyliss-bylgjujárnið og Remington- hárblásararnir. Babyliss Air Styler blástursburstinn finnst mér einnig mjög spennandi og fer hann einnig á óskalistann. “

Dyson Airwrap Styler Complete hárformunartækið 

„Ég hef verið hárgreiðslukona í tæpa tvo áratugi og hef þar af leiðandi prófað ansi mörg hártæki á því tímabili. Eftir að hafa prófað Dyson Airwrap þá er ég sannfærð um að það sé ekkert hártæki með tærnar þar sem Dyson hefur hælana. Við könnumst flest við að hafa fjárfest í hinum ýmsu hártækjum í gegnum tíðina; krullujárnum í mismunandi stærðum og gerðum, sléttujárni, hárblásurum, Carmen-rúllum og svo má áfram telja. Með Dyson Airwrap eru flest þessara hártækja sett saman í eitt, sem er meðal annars ástæðan fyrir verðinu sem margir setja fyrir sig. En í einni og sömu græjunni fylgja sex aukahlutir. Það sem gerir hártækið svo einstakt er að það þurrkar hárið í það form sem þú kýst hverju sinni án þess að nota mikinn hita. Hvort sem þú leitast eftir því að slétta hárið, lyfta því frá rót eða ekki, setja stórar eða litlar krullur þá getur tækið framkallað það með lítilli fyrirhöfn og þér líður alltaf eins og þú sért nýkomin úr blæstri á hárgreiðslustofu. Það er því óhætt að segja að Dyson Airwrap hafi gjörbreytt því hvernig við horfum á hár og umhirðu þess.“ 

„Eins og með öll ný tæki, þá er gott að kynna sér notkunarleiðbeiningar áður en þau eru tekin í notkun. Fyrir suma tekur tíma að læra á ný tæki, fyrir aðra tekur það enga stund. Það gildir einnig um Dyson Airwrap. Það eru til ótal sýnikennslumyndbönd á heimasíðu Dyson og víðar þar sem farið er yfir skref fyrir skref hvernig hægt er að ná ákveðnum hárstíl sem ég mæli innilega með að skoða, bæði áður en tækið er keypt og reglulega eftir kaup til að öðlast færni í alls konar hárgreiðslum.

„Nýlega kom út ný útgáfa af Dyson Airwrap sem er mjög spennandi. Í eldri útgáfunni eru tvær mismunandi rúllur af sömu stærðinni af krullukeilunni – fyrir hvora hlið þar sem ein rúlla fer rangsælis og hin réttsælis. Í nýju útgáfunni er búið að einfalda þetta og sameina þessar tvær rúllur í eina og áttinni er nú stjórnað með litlum snúningsflipa. Einnig er búið að betrumbæta blástursstútinn, á honum eru nú tvær stillingar, önnur til að blása hárið beint og hinn til að ná litlu hárunum niður, en það telst vera algjör bylting í hártækjum. Ég verð því að segja að ef það er eitthvað eitt tæki sem þú vilt eiga heima fyrir þá er það þetta, því notagildið er svo mikið!“

Revlon-hárburstinn
Revlon  hita- og blástursburstinn er frábær lausn fyrir þá sem vilja eiga hártæki sem blæs hárið slétt eða framkallar liði og gefur því góða fyllingu, allt í einu tæki. Hárin í burstanum eru blanda af löngum og stuttum hárum sem gerir það að verkum að við notkun verður hárið silkimjúkt og glansmikið. Gott er að skipta hárinu niður í nokkra parta við notkun tækisins og byrja neðst og fikra sig upp eftir hárinu. Þessi græja hefur farið sigurför á TikTok smáforritinu og því hægt að leita að notkunarhugmyndum þar með því að skrifa í leitargluggann „Revlon Hair Dryer Brush“ og þar fáið þið endalausa valmöguleika. Svo má ekki gleyma því að tækið er á mjög góðu verði!“

Babyliss-bylgjujárnið

„Bylgjujárn er eitt af þessum hártækjum sem er frábært að eiga og grípa í. Eins og orðið ber með sér, þá gerir Babyliss-bylgjujárnið mjúkar bylgjur í hárið sem hægt er að gera frekar hátíðlegar og einnig meira hversdags, en það fer allt eftir því hvernig það er notað. Möguleikarnir eru endalausir og ekki skemmir fyrir hvað það er ótrúlega auðvelt í notkun. Þú skiptir hárinu einfaldlega í nokkrar skiptingar, staðsetur heitt járnið í hárið upp við rótina og heldur í 3-5 sekúndur. Opnar svo járnið og færir það neðar og endurtekur. Heldur svo áfram niður á við eftir lengd hársins og „voila“. Því minni skiptingar sem þú tekur í hárið, því ýktari verða bylgjurnar. Fyrir lengra komna þá er skemmtilegt að gera lóðréttar skiptingar í hárið til að fá mýkri og náttúrulegri bylgjur.“

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.