Fréttir

Vörusýning IFA

12.10.2017
Sindri Snær Thorlacius | Vörustjóri / hljóð og mynd

Vörustjórar kynntu sér allt það nýjasta í tækniheiminum

Árlega í september er haldin risastór vörusýning í Berlín kölluð IFA eða Internationale Funkausstellung sem haldin hefur verið frá árinu 1924. Í ár voru 1.805 framleiðendur að sýna vörur sínar í 159.000 fermetrum sem skiptast í margar hallir í ExpoCenter City hverfinu.

Við fórum þrír frá ELKO á sýninguna til að svala tækniþorstanum og sjá hvað er á döfinni í heimi tækninnar. Föruneytið innihélt mig, Hjörvar vörustjóra og yfirmann okkar, Óttar innkaupastjóra. Þetta var í fyrsta skipti sem við sóttum þessa ótrúlegu sýningu og vorum við verulega hissa yfir stærð og umgjörð sýningarinnar. Við vissum alveg ca. í hvað stefndi en samt kom stærðin á svæðinu okkur verulega á óvart, fjöldi framleiðenda og vegalengdirnar sem þurfti að fara. Það kæmi mér ekki á óvart að maður yrði aftur hissa næst, þetta er það stórt!

26 hallir á tveimur til þremur hæðum

Á sýningarsvæðinu voru 26 hallir og flestar hallir á tveimur til þremur hæðum. Þá var hver salur á hverri hæð risastór, eða oftast á stærð við fótboltavöll að flatarmáli. Flestir framleiðendur voru með litla bása, enda ekki á allra færi að borga undir stærðarinnar sýningarbás á svona sýningu. Hins vegar voru stærri básarnir rosalega vel úti látnir. Stærstu framleiðendurnir; LG, Sony, Philips, Panasonic og Grundig voru með heilu salina undir sig en Samsung tók það á næsta stig og hafði heila höll undirlagða fyrir sig eingöngu.

Vélmenni og snjalltækni eru framtíðin

Það sem stóð helst upp úr í vöruúrvalinu voru nokkur atriði:

Vélmenni. Vélmenni allsstaðar! Í alvöru þá voru óþægilega margir framleiðendur með vélmenni sem sérhæfðu sig í ýmsum verkum. Sum dönsuðu við tónlist á meðan önnur hreinsuðu gólf eða slógu garða.

Flest allt á sýningunni var „snjallt“ – Nettengdir ísskápar innihéldu flestir myndavélar og spjaldtölvur í hurðunum, margir hátalarar voru komnir með Google Assistant eða Amazon Alexa raddstuðning og nánast öll raftækin fáanleg með þráðlausri nettengingu. Þá meina ég að öllum venjulegu raftækjunum á heimilinu verður stjórnað úr símanum eða tölvunni, svokallað „Internet of Things“ eins og það þekkist sem.

Fjöldi kínverskra seljenda voru með svipaðar eða jafnvel sömu vörurnar.

Það var mjög algengt að tveir kínverskir framleiðendur voru saman í sal með sömu vörurnar með sitthvort logoið.

Fjöldi „eftirlíkinga“ eða vara sem voru greinilega hannaðar eftir öðrum þekktum og vel heppnuðum vörum. Það voru þó nokkrir framleiðendur að framleiða Bluetooth hátalara sem litu mjög svipað út og Sony eða Marshall t.d.

Nýjungar frá IFA í verslanir ELKO

Þetta var hrikalega áhugaverð og skemmtileg ferð! Við sáum hvað nánasta framtíð hefur upp á að bjóða og punktuðum niður slatta af vörum sem við munum fá inn í verslanir okkar á næstu vikum og mánuðum!

 

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.