Fróðleikur

Að þrífa ísskápinn

2.10.2018

Að þrífa ísskápinn

Það hefur alltaf reynst vel að hugsa vel um heimilistækin sín, þau endast lengur og haldast lengur eins og ný. Að þrífa tækin er stór partur af góðri umhirðu, ekki síst varðandi ísskápinn, þar sem við geymum matvæli.

Hvað er best að gera?

Gott er að þrífa ísskápinn á allavega tveggja mánaða fresti ef ekki oftar. Hér eru einfaldur tékklisti sem gott er að fara eftir.

  • Byrjaðu á því að taka allt út úr ísskápnum. Vertu með ruslapoka við hendina og hentu jafn óðum því sem þú telur ekki lengur eiga erindi inn í ísskáp. Skoðaðu einnig hvort þú getir nýtt eitthvað af þessu eins og þú getur lesið um hér í blogginu um hvað skal setja í frystinn.
  • Það sem má aftur fara inn í ísskáp leggur þú á bekkinn. Ef þú ert í vafa getur þú kynnt þér hvernig best er að sortera mat inn á www.matarsoun.is.
  • Taktu nú eina hillu eða skúffu úr skápnum og þvoðu hana með mildri sápu og uppþvottabursta eða svampi. Ef þú hefur nóg borðpláss getur þú lagt viskustykki á borðið og lagt hilluna/skúffuna á til þerris. Taktu svo næstu hillu/skúffu út og svo koll af kolli. Mundu bara að glerið er kalt nýkomið úr ísskápnum og þá er ekki ráðlegt að nota mjög heitt vatn því glerið (og plastið) gæti sprungið.
  • Nú ætti ísskápurinn að vera alveg tómur og þá upplagt að þrífa hann að innan. Best er að nota vatn og edik við þrifin þar sem matur getur dregið í sig lyktina af sápu. Edik er góður hreingerningarkostur og eyðir einnig vondri lykt. Ef þú þarft að eiga við erfiða bletti getur þú notað hin ýmsu grófu hreingerningar efni en þú getur einnig notað tannkrem og það er mögulega sniðugra. Þrífðu skápinn vel, allar rákir, hliðar, hurðarfals, gúmmí og fl. Þerraðu svo ef það er bleyta eftir þrifin.
  • Munið eftir gatinu neðarlega í skápnum fyrir miðju. Þangað inn lekur vatn sem myndast vegna raka í ísskápnum og í gatinu getur gjarnan myndast mygla. Það er mjög gott að þrífa það með eyrnapinna.
  • Nú getur þú sett hillurnar og skúffurnar aftur inn, en passaðu að hafa þær þurrar.
  • Þegar ísskápurinn er klár þarf að setja matinn aftur inn. Takið ykkur tíma í að þurrka af krukkum, flöskum og dollum með rakri tusku því það er ekkert leiðinlegra en að fá klístrið strax í ísskápinn aftur.
  • Raðið matvælunum skipulega upp og gott er að hafa grænmeti og ávexti í opnum ílátum eða boxum.

Það eru til nokkrir punktar sem þú getur lesið um hér á blogginu varðandi hvaða matvæli eiga heima í ísskáp og hver ekki. Einnig hvernig best er að raða í ísskáp svo matvælin haldist vel. Þó eru flestir nýir ísskápar í dag með Multiflow system sem gefur jafna kælingu og raka um allan skápinn og þá ætti ekki að skipta máli hvernig maður raðar.

Þegar allt er klárt skaltu halda áfram með tuskuna aðeins utan á ísskápnum, ofan á og á höldunum.

Gott er svo að viðhalda hreinlæti ísskápsins með því að þurrka úr honum með edik- og vatnsblöndu reglulega og  þrífa jafn óðum krukkur og umbúðir sem hafa fengið á sig klístur eða klíning. Þá er ekki þörf á allsherjar þrifum jafn oft.

Ef það er vond lykt í ísskápnum og enn þrátt fyrir þrifin getur þú fengið nokkur ráð hér.

Deildu með vinum

ELKO PÓSTLISTINN

Skráðu þig og fáðu tilkynningar um tilboð, fræðsluefni og ELKO blaðið sent.